Mbeumo, Wirtz, Diomande, Quenda, Nypan, Van Nistelrooy, Cherki og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   sun 10. nóvember 2024 10:00
Brynjar Ingi Erluson
Ryan Babel leggur skóna á hilluna
Ryan Babel í leik með Liverpool
Ryan Babel í leik með Liverpool
Mynd: Getty Images
Ryan Babel, fyrrum leikmaður Liverpool á Englandi, hefur formlega lagt skóna á hilluna eftir nítján ára atvinnumannaferil. Þetta staðfesti hann á X í gær.

Babel fór í gegnum akademíuna hjá Ajax áður en hann var tekinn inn í aðalliðið árið 2004.

Vængmaðurinn lék með aðalliðinu til 2007 en á síðasta tímabili hans var hann valinn efnilegasti leikmaður Ajax og vann EM U21 árs landsliða með Hollandi.

Liverpool keypti hann fyrir 11,5 milljónir punda og gerði hann fimm ára samning við enska félagið.

Á fjórum tímabilum hans með Liverpool skoraði hann 22 mörk í 146 leikjum. Hann átti nokkur ágætis mörk en tvö eftirminnilegustu komu tímabilin 2008-2009 og 2009-2010 Hann gerði sigurmarkið í 2-1 sigri á Manchester United og skoraði þá stórbrotið mark með hælnum í 6-1 stórsigri á Hull City.

Babel spilaði einnig með Hoffenheim, Fulham, Deportivo La Coruna, Besiktas, Galatasaray og Kasimpasa.

Hollendingurinn var síðast á mála hjá Eyupspor í tyrknesku B-deildinni. Hann lék sinn síðasta leik á síðasta ári en tilkynnti ekki um endalok ferilsins fyrr en í gær.

„Skórnir komnir upp í hillu. Takk fyrir, fótbolti,“ skrifaði Babel undir færslu sína.

Babel lék 69 A-landsleiki fyrir Holland og skoraði 10 mörk.


Athugasemdir