Heimild: Vefur Liverpool
Liverpool staðfesti í morgun að Mohamed Salah hafi framlengt samningi sínum við félagið og verði því áfram í þeirra herbúðum.
Núverandi samningur hans var að renna út í lok þessa tímabils en nú er ljóst að hann verði áfram fram til sumarsins 2027.
Salah sem er 32 ára gamall hefði verið frjálst að ganga til annars félags frítt í sumar en nú er ljóst að svo verður ekki.
Enn er óljóst með framtíð Virgil van Dijk og Trend Alexander Arnold sem eru einnig að verða samningslausir. Þó er talið líklegt að Alexander-Arnold gangi í raðir Real Madrid og orðrómur um að stutt sé í tilkynningu um framlengingu hjá Van Dijk.
„Auðvitað er ég virkilega spenntur, við erum með frábært lið núna og vorum með það áður. En ég samdi því ég tel okkur eiga möguleika á að vinna titla og ég geti notið fótboltans áfram," sagði Salah á vef félagsins.
Hann hefur skorað 32 mörk í 45 leikjum í öllum keppnum á þessu tímabili en þar af eru 27 í ensku úrvalsdeildinni þar sem hann er markahæstur. Hann hefur lagt upp 22 mörk.
„Þetta er frábært. Ég hef átt bestu ár ferilsins hérna, hef spilað átta ár og vonandi verða þau 10. Ég nýt lífsins hérna sem og fótboltans, þetta hafa verið bestu ár ferilsins," hélt hann áfram.
Salah kom til Liverpool frá Roma á Ítalíu sumarið 2017. Hann hefur verið orðaður við félög í Sádí Arabíu en nú er ljóst að hann fer ekkert.
„Mig langar til að segja stuðningsmönnunum að ég er virkilega ánægður hérna. Ég samdi því ég hef trú á að við getum unnið marga stóra titla saman. Haldið áfram að styðja okkur og við leggjum okkur alla fram og vonandi vinnum við fleiri titla í framtíðinni."
Frá því Salah kom til Liverpool er hann kominn í þriðja sæti yfir markahæstu leikmenn liðsins frá upphafi með 243 mörk í 394 leikjum. Hann hefur unnið ensku úrvalsdeildina og Meistaradeildina með félaginu auk Heimsmeistaramóts félagsliða, Ofurbikar Evrópu, enska FA bikarinn og deildabikarinn tvisvar.
Þrisvar hefur hann fengið gullskóinn í ensku úrvalsdeildinni og tvisvar verið valinn leikmaður ársins af leikmönnum deildarinnar.
Athugasemdir