Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   þri 11. maí 2021 13:50
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Auður Scheving: Ótrúleg tilfinning að vera komnar í 4-1 í fyrri hálfleik
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍBV vann í gær 4-2 heimasigur gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks í 2. umferð Pepsi Max-deildar kvenna. ÍBV leiddi 4-1 í hléi en liðið lék seinni hálfleikinn manni færra. Breiðablik náði að minnka muninn undir lok leiks en komst ekki lengra.

Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving er markvörður ÍBV, hún er á láni frá Val. Auður var valin næstbest á vellinum í skýrslu Eyþórs Daða Kjartanssonar efir leik.

„Auður átti fullt af mikilvægum og góðum vörslum í dag. Í stöðunni 0-1 og 1-1 þá hélt hún ÍBV í leiknum. Erfitt að setja ekki Viktoriju hingað en Auður átti sinn besta leik í treyju ÍBV að mínu mati," skrifaði Eyþór Daði í skýrslu sína. Fréttaritari hafði samband við Auði í gærkvöldi og spurði hana út í leikinn.

„Við ætluðum bara inn í þennan leik brjálaðar, þetta var svekkjandi tap á móti Þór/KA þannig við vorum hungraðar í stig. Við vorum vel undirbúnar og ætluðum okkur að berjast allan leikinn, það er búið að vera mjög góður liðsandi hjá okkur í Eyjum og við sýndum það í leiknum að við erum lið og við vinnum saman sem lið," sagði Auður.

„Það sem við gerðum vel var auðvitað bara baráttan og mér fannst við lesa vel hvað þær ætluðu að gera og náðum að loka vel á þær, enda búið að fara vel yfir okkar hlutverk fyrir leikinn. Við erum góðar í skyndisóknum og erum hættulegar þar en við erum samt lika góðar að spila og sýndum það á köflum. Við sýndum einnig þennan týpíska Eyjabaráttuanda og markmiðið var að við ætluðum hreinlega bara að negla þær niður og berjast frá fyrstu mínútu."

Hver var þín sýn á rauða spjaldið? Olga Sevcova fékk rautt spjald á 45. mínútu leiksins.

„Þetta rauða spjald er auðvitað smá skiljanlegt þegar hún Olga slær Ástu í andlitið. En ég upplifði þetta þannig að Ásta ýtir eða slær í Olgu fyrst en auðvitað átti Olga að halda haus og ekki gera eitthvað klaufalegt eins og þetta. Ég var hins vegar ekki sátt að Ásta fékk ekki gult spjald líka."

Hvernig spilaðist þetta eftir rauða spjaldið?

„Við skorum svo eftir þetta atvik sem var mikill léttir og þetta var svo ótrúleg tilfinning að vera komnar 4-1 yfir í fyrri hálfleik. Í hálfleik tókum við svo góðar peppræður inn í klefa og Andri breytti leikkerfinu smá og við áttum bara að halda áfram að þora að spila og berjast endalaust, eins og við gerðum svo."

„Það var leiðinlegt að ná ekki öðru marki á þær og ennþá leiðinlegra að fá annað mark á okkur, en sigur er sigur!"


En hvernig líst þér á framhaldið?

„Núna er það bara næsti leikur sem er Tindastóll sem hefur aldrei verið í efstu deild þannig það verður spennandi að mæta þeim. Þær unnu næstum Þrótt sem eiga að vera sterkar þannig ég held að þetta verði hörkuleikur, ef hann verður spilaður þar að segja vegna covid."

„Einbeitingin er núna á næsta leik og næsta verkefni. Við verðum að passa að einbeita okkur og vera agaðar,"
sagði Auður að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner