„Þetta var rosalega sætt og rosalega flott frammistaða hjá liðinu. Ég er ógeðslega stoltur af strákunum, hvað þeir sýndu inni á vellinum. Við gáfum allt í þennan leik og þá fer þetta svona," sagði Birgir Baldvinsson bakvörður Leiknis eftir 1 - 0 heimasigur á Val í Bestu-deild karla í kvöld.
Lestu um leikinn: Leiknir R. 1 - 0 Valur
Leiknir hafði tapað 9 - 0 úti fyrir Víkingi í miðri viku en það var allt annað að sjá til liðsins í dag.
„Við vissum að við þyrftum að sanna okkur og við vissum að við værum betri en þetta. Það hefur gerst oft í fótbolta að lið tapi 9-0 en við sýndum alvöru karakter að koma til baka eftir svona tap. Ég er stoltur af liðinu."
Zean Dalügge leikmaður Leiknis fékk að líta rauða spjaldið á 19. mínútu fyrir fáránlegt brot út við hliðarlínu sem var algjör óþarfi en skildi þar með liðsfélagana eftir í enn meiri vandræðum manni færri.
„Ég sá þetta ekki almennilega en var samt aðeins að mótmæla þessu eins og maður gerir alltaf. Ég er viss um að þetta hafi verið rétt hjá Helga (Mikael Jónassyni dómara), mér fannst hann dæma þennan leik mjög vel. Þetta var brekka en strákarnir gáfu allt í þetta og það skilaði þessum sigri. Við hlupum endalaust og vorum duglegir og það sýnir sig að það skilar alltaf á endanum."
Eftir síðasta leik hélt ég að þið væruð hættir og sáttir við að falla en það er aldeilis ekki eftir frammistöðuna í dag?
„Nei, Leiknir er ekki þannig, við gefumst ekki upp. Við vorum búnir að ákveða að sýna hvað við getum og gerðum það svo sannarlega í dag."
Birgir skoraði sjálfur sigurmarkið í leiknum eftir sendingu frá Davíð Júlían Jónssyni.
„Ég bað um boltann frá Davíð á miðjunni og svo sá ég Birki koma svo ég ákvað að taka fake shot með vinstri og hitti hann svo með hægri og sá hann fara framhjá honum í markinu og sá hann inni. Ég var ekki viss hvort hann hafi farið inn fyrst en svo sá ég alla fagna og fór og fagnaði."

L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 |