Man Utd gæti átt von á tilboði frá Napoli í Alejandro Garnacho - Bayern München vill Mainoo - Man City til í að hleypa Walker frítt
   mið 11. september 2024 16:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Grótta ætlar að nota peningana til að fjárfesta í framtíðinni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Orri í leik með Gróttu árið 2019. Hann fór til FCK eftir það tímabil.
Orri í leik með Gróttu árið 2019. Hann fór til FCK eftir það tímabil.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Hákon Rafn var maður leiksins í sigri Brentford í deildabikarnum á dögunum. Hann var keyptur til Elfsborg í Svíþjóð sumarið 2021.
Hákon Rafn var maður leiksins í sigri Brentford í deildabikarnum á dögunum. Hann var keyptur til Elfsborg í Svíþjóð sumarið 2021.
Mynd: Getty Images
Kjartan Kári var magnaður með Gróttu tímabilið 2022 og var keyptur til Haugesund í Noregi eftir það tímabil.
Kjartan Kári var magnaður með Gróttu tímabilið 2022 og var keyptur til Haugesund í Noregi eftir það tímabil.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tómas er fæddur árið 2007 og átti frábært tímabi með Gróttu 2023. Hann samdi við AZ í Hollandi síðasta vetur.
Tómas er fæddur árið 2007 og átti frábært tímabi með Gróttu 2023. Hann samdi við AZ í Hollandi síðasta vetur.
Mynd: AZ
Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum íslenskum fótboltaáhugamanni að Real Sociedad keypti íslenska landsliðsmanninn Orra Stein Óskarsson frá FC Kaupmannahöfn á lokadegi félagaskiptagluggans.

Sociedad greiddi 20 milljónir evra fyrir Orra og getur kaupverðið hækkað með árangurstengdum gjöldum. Orri varð með kaupunum næst dýrasti íslenski leikmaður sögunnar. Einungis Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið keyptur á hærri upphæð.

Orri er uppalinn hjá Gróttu og er ljóst að félagið fær einhvern hlut af sölunni, en hversu háa prósentu hefur ekki fengist staðfest. Slúðrað hefur verið um að Grótta fái um 200-300 milljónir íslenskra króna í sinn hlut.

Orri var spurður út í peninginn sem Grótta fær fyrir sig í viðtali fyrir helgi sem nálgast má hér að ofan.

En hvað ætlar Grótta að gera við peninginn?

„Í fyrsta lagi þá er allt Gróttusamfélagið ótrúlega hreykið af Orra, hans framgangi, þessum frábæru skiptum til Spánar og því sem hann er að gera með landsliðinu. Við höfum fylgst vel með þróun mála og við munum halda áfram að fylgjast með honum með Real Socedad."

„Það er kannski ekki alveg ljóst hvað nákvæmlega kemur í okkar hlut, ekki heldur hvenær og yfir hversu langan tíma. En við göngum út frá því að það verði eitthvað,"
segir Magnús Örn Helgason sem er yfirmaður fótboltamála hjá Gróttu.

„Við munum reyna að nota það sem kemur inn skynsamlega og reyna að fjárfesta og byggja upp til framtíðar. Ef stjórn deildarinnar tekur aðra stefnu þá kæmi það mér í það minnsta verulega á óvart."

„Gróttu hefur gengið vel að ala upp leikmenn síðustu ár, bæði karla- og kvennamegin, og við viljum klárlega halda því áfram. Það þarf að halda vel utan um öll börn og unglinga sem æfa hjá Gróttu. Og svo þarf starfið í meistaraflokki að vera faglegt. Félagið hefur tekið stór skref þar síðustu ár, haft mjög góða þjálfara bæði karla- og kvennamegin. Við viljum halda því áfram og reyna gera enn betur svo Grótta haldi áfram að skapa umhverfi þar sem leikmenn geta vaxið og dafnað og komist í fremstu röð."


Þegar kemur að því að Grótta fær greiðslu fyrir söluna á Orra, verður eitthvað samtal tekið við Orra um hvernig eigi að nýta fjármunina?

„Ég held að Orri hafi svarað því ágætlega sjálfur í viðtali við ykkur um daginn, að hann sé glaður með að uppeldisfélagið fái einhvern hlut. Hann er með fullan fókus á sinn feril og er til dæmis að fara að spila við Real Madrid á laugardaginn"

Mesta hrósið á leikmennina sjálfa og þeirra nærumhverfi
Fjórir strákar úr starfi Gróttu hafa farið erlendis í atvinnumennsku á síðustu árum. Orri Steinn fór fyrst til FCK, svo fór Hákon Rafn Valdimarsson til Elfsborg, Kjartan Kári Halldórsson fór til Haugesund og Tómas Johannessen fór til AZ Alkmaar síðasta vetur.

Hvað gerðist hjá Gróttu sem veldur því að félagið er að ala upp leikmenn sem vekja athygli erlendis?

„Hvað félagið varðar er það kannski tvennt. Þessir strákar fengu góða þjálfun og gott utanumhald í yngri flokkunum. Í öðru lagi fengu þeir allir tækifæri og ábyrgð snemma í meistaraflokki, Orri náttúrulega sérstaklega snemma, en hann skaraði hvað mest fram úr jafnöldrum sínum."

„Það er svo ekki bara félag sem býr til leikmenn. Það er langmest undir þessu unga fólkið komið og þeim stuðningi sem það fær frá sínum fjölskyldum. Þetta eru heldur ekki bara strákarnir því það má ekki gleyma Emelíu sem er á samningi hjá einu besta félagi Danmerkur"


Allir vildu áritun hjá Orra
Magnús var spurður út í samskipti við leikmennina sem hafa farið erlendis og hvort þeir æfi með Gróttu þegar þeir eru á landinu.

„Þeir eru allir mjög duglegir að kíkja út á völl, hafa heimsótt knattspyrnuskólann og mætt á leiki þegar þeir geta. Orri var á heimaleik í sumar og mér var sagt að hann hafi lítið getað fylgst með leiknum því það voru svo margir krakkar að fá áritun hjá honum. Ég geri ráð fyrir að Real Socedad treyja verði jólagjöfin í ár á Nesinu."

„Tommi tók nokkrar æfingar með Gróttu í sumar en ég veit ekki hvort hinir hafi komið á æfingar á síðustu tímabilum. Þeir þurfa væntanlega að slaka eitthvað á á meðan þeir eru í fríi,"
segir Magnús.
Athugasemdir
banner
banner
banner