Liverpool hefur áhuga á Gomes - Yamal fær nýjan samning - Sean Dyche íhugar markvarðarbreytingu
banner
   mið 11. september 2024 11:05
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Gummi Kristjáns í eins leiks bann en Böddi sleppur
Gummi Kristjáns
Gummi Kristjáns
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Böddi.
Böddi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðmundur Kristjánsson, fyrirliði Stjörnunnar, hefur verið úrskurðaður í eins leiks bann fyrir atvik í leik FH og Stjörnunnar fyrir rúmri viku síðan. Böðvar Böðvarsson, leikmaður FH, var einnig í eldlínunni í sama atviki en honum er ekki gert að sæta agaviðurlögum. Atvikið átti sér stað inn á vítateig Stjörnunnar. Böðvar setti olnboga í Guðmund sem svaraði með höggi í andlit Böðvars.

Í úrskurðinum er brot Böðvars ekki metið sem alvarlegt agabrot en að Guðmundur hafi sýnt af sér „alvarlega grófan og hættulegan leik er hann slæmir hendi sinni í höfuð leikmanns FH."

Pétur Guðmundsson, dómari leiksins, og dómarateymið allt, missti af atvikinu. Bæði Stjarnan og FH skiluðu af sér greinargerð áður en dæmt var í málinu. Refsing Guðmundar er sambærileg þeirri sem leikmaður kvennaliðs FH fékk fyrr í sumar fyrir gróft brot í leik gegn Tindastóli.

Það er mat nefndarinnar, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, að atvik það sem vitnað er til í greinargerð málskotsnefndar KSÍ frá 3. september sl. og jafnframt birtist á myndskeiði sem fylgir með greinargerðinni, uppfylli ekki áskilnað ákvæðis 6.3 reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál um alvarlegt agabrot. Forsenda þess að nefndin geti úrskurðað um viðurlög á grundvelli greinar 6.3 er að meint brot uppfylli áskilnað ákvæðisins að um hafi verið að ræða alvarlegt agabrot sem dómari og aðstoðarmenn hans sáu ekki í leik og brugðust því ekki við. Hefur aga- og úrskurðarnefnd því ákveðið að Böðvar Böðvarsson, leikmaður FH, skuli ekki sæta viðurlögum samkvæmt 13. gr. sömu reglugerðar. Segir í úrskurðinum um aðild Böðvars á málinu.

Það er mat nefndarinnar, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, að atvik það sem vitnað er til í greinargerð málskotsnefndar KSÍ frá 3. september sl. og jafnframt birtist á myndskeiði sem fylgir með greinargerðinni, sé alvarlegt agabrot. Í tilvitnuðu atviki sýnir leikmaður Stjörnunnar í Bestu deild karla, Guðmundur Kristjánsson, af sér alvarlega grófan og hættulegan leik er hann slæmir hendi sinni í höfuð leikmanns FH Böðvars Böðvarssonar. Atvik þetta hafi hvorki dómari né aðstoðarmenn hans séð í leik FH og Stjörnunnar í Bestu deild karla þann 1. september sl.

Hefur aga- og úrskurðarnefnd ákveðið, með vísan til ákvæða 6.2. og 6.3 í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál, að úrskurða Guðmund Kristjánsson, leikmann Stjörnunnar, í eins leiks bann í Íslandsmóti vegna atviksins í framangreindum leik, samkvæmt 13. gr. sömu reglugerðar. Leikbann Guðmundar Kristjánssonar tekur gildi kl. 12 á hádegi næsta dag frá birtingu á úrskurði þessum, sbr. grein 9.2. reglugerðarinnar.
segir í úrskurði aga- og úrskurðarnefndar um aðild Guðmundar að málinu.

Guðmundur verður í leikbanni þegar Stjarnan tekur á móti Vestra í 22. umferð Bestu deildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner