Mainoo að fá nýjan samning - Tekur Guardiola við enska landsliðinu - Eriksen fer til Ajax
   fös 11. október 2024 14:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Dúna og Dino Hodzic koma inn í þjálfarateymi ÍA (Staðfest)
Dúna.
Dúna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dino Hodzic.
Dino Hodzic.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dúna á ársþingi KSÍ fyrr á þessu ári.
Dúna á ársþingi KSÍ fyrr á þessu ári.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍA tilkynnti í dag um breytingar á þjálfarateymum meistaraflokka félagsins. Dúna Sturlaugsdóttir, fyrrum styrktarþjálfari kvennalandsliðsins, hefur verið ráðin sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna „með áherslu á styrktarþjálfun og þróun yngri kvenna leikmanna hjá félaginu."

Guðrún Þorbjörg, Dúna, er fyrrum fyrirliði ÍA og kemur inn í þjálfarateymið í stað Aldísar Ylfu Heimisdóttur. Aldís var aðstoðarþjálfari Skarphéðins Magnússonar á liðnu tímabili.

Þá hefur Dino Hodzic verið ráðinn sem markmannsþjálfari félagsins. Hann mun bæði sjá um markmenn beggja meistaraflokkanna og markmenn yngri flokka. Dino hefur verið á Akranesi frá 2019, hann hefur ýmist verið varamarkvörður ÍA eða aðalmarkvörður Kára.

Dino kemur inn fyrir Þorstein Magnússon sem klárar tímabilið með meistaraflokki karla áður en leiðir skilja.

Um Dúnu í tilkynningunni:
Dúna hefur mikla reynslu, bæði sem þjálfari og leikmaður. Dúna er með UEFA-B þjálfaragráðu og er íþróttafræðingur með master í íþróttavísindum og þjálfun, sem og heilsuþjálfun og kennslu. Ásamt þjálfuninni starfar Dúna sem verkefnastjóri Farsæls Frístundastarfs hjá Akraneskaupstað. Dúna á 94 leiki fyrir ÍA sem leikmaður, skoraði í þeim 24 mörk og var um tíma fyrirliði liðsins.

Dúna hefur áður starfað sem styrktarþjálfari hjá sænska knattspyrnuliðinu Kristianstad sem og íslenska kvennalandsliðinu í Knattspyrnu.

„Það er góð tilfinning að vera komin aftur til baka í uppeldisfélagið. Hér ólst ég upp og á dásamlegar minningar, og er spennt fyrir því að taka þátt í því góða starfi sem er að eiga sér stað hjá kvennaflokkum ÍA."

Um Dino í tilkynningunni:
Dino Hodzic hefur hefur verið ráðinn markmannsþjálfari félagsins. Dino Hodzic mun bæði sjá um markmenn beggja meistaraflokka félagsins sem og markmenn yngri flokka.

Dino er orðinn Skagamönnum vel kunnugur en hann hefur leikið fyrir meistaraflokk félagsins frá árinu 2019. Dino hefur á sínum leikmannaferli spilað fyrir bæði Vejle og Frederica í Danmörku. Hann hefur einnig komið að þjálfun yngri flokka ÍA undanfarin ár.

Dino hefur á sínum ferli unnið með þekktum markmannsþjálfurum í greininni og er þessa stundina að sækja menntun KSÍ í þjálfun markmanna.

„Ég er þakklátur fyrir það tækifæri sem mér hefur verið gefið hjá félaginu. Ég hef notið þess að vera hluti af samfélaginu á Akranesi frá því ég kom hingað fyrst og hér líður mér og fjölskyldu minni mjög vel. Ég hlakka til að vinna með þeim fjölmörgu góðu & efnilegu markvörðum innan félagsins á komandi árum."
Athugasemdir
banner
banner
banner