Pep vill fá fyrrum leikmann Liverpool - Liverpool fylgist með tveimur Svíum - Grealish orðaður við Tottenham
   mán 11. nóvember 2024 17:46
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Með miklar tengingar við Eyjar - „Ævintýri sem ég er klár í"
Samdi við ÍBV í síðustu viku. Arnór þekkir þjálfarann vel frá Stjörnunni og yngri landsliðunum.
Samdi við ÍBV í síðustu viku. Arnór þekkir þjálfarann vel frá Stjörnunni og yngri landsliðunum.
Mynd: ÍBV
Mjög þakklátur fyrir tækifærin hjá Leikni.
Mjög þakklátur fyrir tækifærin hjá Leikni.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Kristófer Ingi varð Íslandsmeistari með Breiðabliki í haust.
Kristófer Ingi varð Íslandsmeistari með Breiðabliki í haust.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristinn Ingi Lárusson, Kiddi Lár, varð Íslandsmeistari með ÍBV 1998.
Kristinn Ingi Lárusson, Kiddi Lár, varð Íslandsmeistari með ÍBV 1998.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór og Omar Sowe spila áfram saman.
Arnór og Omar Sowe spila áfram saman.
Mynd: ÍBV
„Ég á nú eftir að fara til Eyja, það er búið að vera svo vont veður síðustu daga þannig maður er ekkert búinn að fara í skoðunarferð. Ég er að fara núna um helgina," segir Arnór Ingi Kristinsson, nýjasti leikmaður ÍBV, við Fótbolta.net.

Hann var tilkynntur sem nýr leikmaður ÍBV um helgina en hann hafði áður rift samningi sínum við Leikni.

Fékk ábendingu frá þriðja aðila
„Ég var látinn vita af áhuga frá ÍBV, félagið mátti þá sjálft ekki tala við mig af því ég var samningsbundinn Leikni. Ég var strax spenntu og stekk á þetta, langaði að spila í efstu deild og það kom ekkert annað til greina en að kýla á þetta. Eftir riftunina heyrði ég í formanni ÍBV og Láka þjálfara. Þetta gerðist hratt eftir það."

„Ég var með riftunarákvæði í samningnum út október. Það var ekkert í stöðunni þannig séð að ég myndi rifta, en þegar ég heyrði af áhuga ÍBV þá var það eiginlega það eina í stöðunni."


Eitthvað spennandi í loftinu
Hvað er mest spennandi við ÍBV?

„Þetta er mjög gott lið, það sýndi sig í Lengjudeildinni. Þetta er ungt lið, rosalega góðir fótboltamenn og ÍBV yfir höfuð, þetta er gamalt stórveldi og ég þekki söguna ágætlega. Það eru leikmenn í liðinu sem heilluðu mig í sumar og mig langar að vera partur af þessu liði. Það er eitthvað spennandi í loftinu og ég held að við getum gert alveg jafngóða hluti og Skagamenn gerðu í sumar í Bestu deildinni."

Mætir bróður sínum í fyrsta skiptið
Arnór á að baki tvö tímabil með Leikni í efstu deild og hálft tímabil með Val.

„Ég er klárlega spenntur að spila aftur í efstu deild. Öll augu eru á deildinni, þetta er allt annað dæmi. Stemningin í kringum deildina er ógeðslega skemmtileg og það sakar ekki að ég mun keppa í fyrsta skiptið á móti eldri bróður mínum."

Kristófer Ingi er með lausan samning hjá Breiðabliki. Þú hefur ekkert reynt að plata hann til Eyja?

„Nei nei, ég held að hausinn hans sé ekkert alveg þar. Hann er í sínum viðræðum og það ætti að koma í ljós hvað gerist með hann núna á næstu dögum."

Pabbi hans varð Íslandsmeistari með ÍBV
Faðir Arnórs, Kristinn Ingi Lárusson, spilaði með ÍBV tímabilið 1998 og varð Íslandsmeistari.

„Við ræddum þetta aðeins, hann sagði mér hvað þetta hefði verið skemmtilegur tími fyrir sig og hvað það þyrfti að leggja hart að sér til þess að vinna hug og hjarta Eyjamanna. Það er ekkert sjálfgefið. Hann sagði að þetta væri gott tækifæri fyrir mig og ég er mjög spenntur fyrir því."

Með Láka sem þjálfara í unglingalandsliðunum
Láki, Þorlákur Árnason, er þjálfari ÍBV. Hann var þjálfari Arnórs í unglingalandsliðinum en Arnór lék á sínum tíma þrettán leiki fyrir U16-U18.

„Ég hef þekkt Láka í mörg ár, hann var yngri flokka þjálfari hjá Stjörnunni á sínum tíma og þjálfaði bróður minn þar. Svo var hann með mig í yngri landsliðunum."

Flytur til Eyja eftir áramót
Arnór spilar oftast sem hægri bakvörður en gæti einnig spilað vinstra megin hjá ÍBV.

„Í sumar var ég bara í hægri bakverðinum en þegar ég talaði við Láka þá sér hann mig líka sem kost vinstra megin. Mín sterkasta staða er hægri bakvörður."

Arnór ætlar að flytja til Eyja í lok febrúar. „Ég reikna með að ég flytji alfarið í lok febrúar. Ég er núna í námi í bænum og get ekki farið strax yfir. Svo yrði ég í Eyjum fram yfir tímabilið. Í vetur mun ég æfa með einhverju liði hér í bænum, mun setjast niður með Láka og hann finnur út úr því með okkur leikmönnunum sem eru hér í bænum."

Hugsaði af hverju ekki og stökk á tækifærið
Er ekkert mál að taka skrefið og yfirgefa Reykjavík?

„Já og nei. Auðvitað eru allir vinir mínir hérna, en ég á fjölskyldu í Vestmannaeyjum sem mun hjálpa mjög mikið til og ég þekki leikmenn í liðinu; bróðir pabba býr í Eyjum og svo á ég fleiri ættingja líka í Eyjum. Ég þekki Nökkva (Má Nökkvason) mjög vel. Við erum æskufélagar, vorum saman í yngri flokkum Stjörnunnar."

„Mér finnst þetta vera ævintýri sem ég er klár í og það er ekkert á hverjum degi sem manni býðst að fara til Eyja. Ég hugsaði bara af hverju ekki og stökk á þetta."


Algjör veisla að spila áfram með Sowe
Omar Sowe, samherji Arnórs hjá Leikni, var fyrsti leikmaðurinn sem ÍBV nældi í eftir komu Láka til félagsins.

„Það er algjör veisla að spila áfram með honum. Ég hafði ekki hugmynd um að hann væri á leið til ÍBV þegar ég spurði hann rétt áður en það var tilkynnt um komu hans til félagsins. Það er bara geggjað, við náum vel saman og við munum skemmta okkur vel saman í Eyjum."

Kynntist vinum sem verða til eilífiðar
Arnór Ingi er uppalinn hjá Stjörnunni en skipti yfir í Leikni frá Fylki fyrir tímabilið 2020. Hvernig er að yfirgefa Leikni?

„Það var ekki auðvelt, ein af mínu bestu fótboltaminningum er hjá Leikni og ég er rosalega þakklátur fyrir tækifærin sem ég fékk þar á sínum tíma. Ég var fenginn inn rétt fyrir mót 2020 og fer með liðinu upp í efstu deild. Ég kynntist vinum sem munu verða til eilífðar held ég. Þetta var svakalega skemmtilegur tími í Breiðholtinu," segir Arnór Ingi.
Athugasemdir
banner
banner