„Það var fyrir stuttu sem ég vissi að ég yrði leikmaður Haugesund, ég var búinn að heyra að það væri eitthvað að gerast á milli Vals og Haugesund og svo kom það í ljós í síðustu viku," sagði Hlynur Freyr Karlsson sem keyptur var til norska félagsins frá Val og voru kaupin staðfest í síðustu viku.
Heyrst hafði af áhuga Haugesund í smá tíma áður en skiptin gengu í gegn en óvíst var hvort norska liðið myndi halda sæti sínu í deildinni.
Heyrst hafði af áhuga Haugesund í smá tíma áður en skiptin gengu í gegn en óvíst var hvort norska liðið myndi halda sæti sínu í deildinni.
Var eitthvað samkomulag um að hann færi til Noregs ef liðið myndi halda sér í efstu deild?
„Ekkert samkomulega um það beint, en það voru mjög góðar líkur á að ég myndi fara ef þeir myndu halda sér uppi. Þetta snerist um hvað ég vildi sem var að spila á sem hæsta 'leveli' og ég get."
„Ég get ekki beðið eftir því að byrja, fer út í byrjun janúar og er mjög spenntur að fara byrja - mótiveraður í þetta. Mér líst mjög vel á þetta, rólegur og þægilegur bær sem hentar mjög vel fyrir mig."
Haugesund hélt sér uppi í lokaumferðinni og fylgdist Hlynur spenntur með. „Það var erfitt að horfa á leikinn, það var mikið stress. Svo skoraði hann [Bilal Njie] (tvennu) í lokin og ég var mjög sáttur." Vålerenga hefði getað komist upp fyrir Haugesund ef liðið hefði misstigið sig en úr varð að Vålerenga vann ekki sinn leik og féll svo eftir umspilsseinvígi gegn Kristiansund.
Óskar Hrafn Þorvaldsson er formlega tekinn við sem þjálfari norska félagsins. „Samtölin við hann voru mjög góð, hann var að segja mér planið með liðið og með mig. Mér líst mjög vel á að vera miðvörður, líður eiginlega best þar myndi ég segja og það hentar mér mjög vel að vera hafsent. Ég er mjög spenntur að vera fenginn aðallega sem hafsent."
Hlynur kom í Val frá Bologna og kom þá sem hægri bakvörður. „Þetta er heldur betur búið að þróast hratt. Ég var aldrei búinn að spila leik í hafsent áður en ég kem í Val. Það er þægilegt að sjá allan völlinn fyrir framan sig og kannski meiri tími á boltann í sumum leikjum."
Hlynur hafði kost á því að velja á milli Breiðabliks og Vals þegar hann kom frá Ítalíu. Hann ákvað að velja Val fram yfir uppeldisfélagið. „Það er rétt, Óskar heyrði í mér þá líka. Ég sagði nei við hann þá og já við hann núna."
„Ég get ekki beðið að fara vinna með honum, það verður frábært að vinna með honum aftur. Ég vann með honum í nokkra mánuði í Breiðabliki áður en ég fór út til Bologna. Ég er mjög spenntur."
Hlynur, sem er nítján ára, átti frábært tímabil og var fastamaður í liði Vals sem endaði í 2. sæti Bestu deildarinnar. Hlynur var valinn í lið ársins hér á Fótbolti.net fyrir frammistöðu sína. Kom honum á óvart hversu mikið hann spilaði?
„Þegar ég kom til baka frá Ítalíu þá vissi ég ekki alveg hvar ég myndi standa í meistaraflokksfótbolta því ég var aldrei búinn að spila þannig bolta. Þannig það kom mér alveg á óvart."
„Það er geggjað að spila meira en eina stöðu, fer allt í reynslubankann. Ég er mjög sáttur með tímabilið mitt," sagði varnarmaðurinn sem segist hafa komið sjálfum sér á óvart með því hversu stöðugar frammistöður hann sýndi yfir tímabilið. „Ég átti heilt yfir gott tímabil, ekki mikið af niðursveiflum sem ég er ánægður með."
Hann segir að hann hafi hugsað um að taka næsta skref ef eitthvað spennandi og gott kæmi upp.
Spennandi að flytja til Noregs?
„Mjög spenntur að flytja út, koma mér inn í allt. Þetta er lítill og þægilegur bær og miðbærinn minnir á Reykjavík. Ég er spenntur að fara prófa eitthvað nýtt og ferskt umhverfi."
„Liðið ætlar sér væntanlega að gera betur en á þessu tímabili, byggja ofan á þetta og spila skemmtilegan fótbolta," sagði Hlynur.
Athugasemdir