Gunnar Jónas Hauksson og Marvin Darri Steinarsson hafa yfirgefið herbúðir Vestra en þetta staðfesti félagið í gær.
Gunnar Jónas er 25 ára gamall bakvörður sem spilaði sitt fyrsta tímabil í efstu deild í sumar.
Hann spilaði tvö tímabil með Vestra á láni frá Gróttu árin 2019 og 2020 og skipti síðan alfarið yfir fyrir sumarið og steig upp seinni hlutann er Tarik Ibrahimagic var seldur til Víkings.
Alls lék hann 21 leik og skoraði tvö mörk, annað gríðarlega mikilvægt í 1-1 jafntefli gegn Víkingi en það mark átti eftir að reynast dýrmætt þegar talið var úr pokanum fræga í lok tímabils.
Hann hefur nú yfirgefið Vestra en hann ætlar að vera í Reykjavík og sér sér ekki fært að taka tímabilið með Ísfirðingum.
Markvörðurinn Marvin Darri er einnig farinn frá félaginu en samningur hans rann út á dögunum.
Hann kom til Vestra frá ÍA fyrir tveimur árum og spilaði stóra rullu í því þegar liðið komst upp í Bestu deildina á síðasta ári. Í sumar var hann varamarkvörður fyrir William Eskelinen og var síðan lánaður til ÍA seinni hluta tímabilsins.
Marvin er 23 ára gamall og spilaði 36 leiki á þremur tímabilum sínum með liðinu.
Vestri verður áfram í Bestu deildinni á næsta tímabili en markatala hélt liðinu uppi.
Athugasemdir