Myles Lewis-Skelly byrjaði í kvöld sinn fyrsta leik í Meistaradeildinni þegar Arsenal tók á móti Mónakó á Emirates leikvanginum. Lewis-Skelly er 18 ára gamall og leysti stöðu vinstri bakvarðar í dag. Hann átti þátt í fyrsta marki leiksins þar sem Gabriel Jesus lagði upp fyrir Bukayo Saka.
„Ég sá boltann koma frá Martin Ödegaard. Ég var pressaður og hugsaði bara um að vera rólegur, færa boltann frá manninum á móti mér. Ég sá Gabi (Gabriel Jesus) búa sér til pláss og ég sendi boltann í gegn og svo kláraði Bukayo vel. Hann er alltaf klár," sagði Lewis-Skelly eftir leikinn í kvöld.
„Ég er stoltur af sjálfum mér. Ég hef trú á sjálfum mér en leiðin hingað hefur verið löng. Ég vil þakka öllum fyrir þetta tækifæri. Vonandi er þetta fyrsti byrjunarliðsleikurinn af mörgum," sagði sá enski um sinn fyrsta byrjunarliðsleik í Meistaradeildinni.
Arsenal er í 3. sæti Meistaradeildarinnar eftir sex umferðir. Lokatölurnar í kvöld urðu 3-0 en Saka skoraði tvö fyrstu mörk Arsenal og lagði svo upp það þriðja fyrir Kai Havertz undir lokin.
Fyrir leikinn í dag hafði Lewis-Skelly einungis byrjað einn leik fyrir Arsenal. Það var leikur í deildabikarnum á þessu tímabili.
Athugasemdir