þri 12. janúar 2021 14:27
Elvar Geir Magnússon
Tinna Brá í Fylki (Staðfest)
Tinna Brá Magnús­dótt­ir.
Tinna Brá Magnús­dótt­ir.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Tinna Brá Magnús­dótt­ir, sem hef­ur varið mark Gróttu síðustu tvö ár, er geng­in til liðs við Fylki og hef­ur skrifað und­ir þriggja ára samn­ing við Árbæjarfélagið.

Tinna er aðeins sex­tán ára göm­ul en hún lék alla 17 leiki Gróttu í 1. deild­inni á síðasta tímabili.

Tinna er fædd árið 2004 og hefur leikið alls 24 meistaraflokksleiki í deild og bikar með Gróttu, hún hef­ur leikið einn leik með U17 ára landsliði Íslands og þrjá með U15 ára landsliðinu.

Talað er um að henni sé ætlað að fylla skarð Cecil­íu Rán­ar Rún­ars­dótt­ur sem sé væntanlega á förum.

„Við erum virkilega ánægð með að fá Tinnu Brá til liðs við okkur. Tinna er gríðarlega spennandi og efnilegur markvörður sem sýndi það með frammistöðu sinni síðasta sumar með Gróttu að hún er tilbúin í næsta skref og smellpassar inn í það metnaðarfulla umhverfi sem við viljum að sé í kringum Fylkisliðið. Við væntum mikils af henni á komandi árum og erum spennt fyrir framhaldinu," segir Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis, í fréttatilkynningu.

Magnús Örn Helgason, annar þjálfara Gróttu, tjáir sig um skipti Tinnu við heimasíðu félagsins.

„Það er alltaf erfitt að missa góða leikmenn og það er ljóst að nú erum við komin í markmannsleit. Fyrst og fremst erum við þó stolt af Tinnu Brá. Hún hefur bætt sig mikið síðustu misseri og hefur framúrskarandi hugarfar. Við í Gróttu hlökkum til að fylgjast með henni í Pepsi Max deildinni og óskum henni alls hins besta," segir Magnús.

Fylkir hafnaði í þriðja sæti í Pepsi Max-deild kvenna í fyrra.
Athugasemdir
banner
banner
banner