Ríkisstjórnin í Gabon er gríðarlega ósátt eftir slaka frammistöðu landsliðsins í Afríkukeppninni.
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að reka allt þjálfarateymi landsliðsins og leggja um leið landsliðið sjálft niður. Þá er skýrt tekið fram að reynsluboltarnir Pierre-Emerick Aubameyang og Bruno Ecuele Manga eiga ekki afturkvæmt í landsliðið.
Aubameyang og Manga tóku ekki þátt í lokaleik riðlakeppninnar.
Gabon endaði á botni F-riðils eftir þrjá tapleiki í Marokkó. Fyrst tapaði Gabon gegn stórveldi Kamerún í fyrstu umferð en svo fengu lærlingar Thierry Mouyouma skell gegn Mósambík.
Þeir töpuðu viðureigninni óvænt áður en komið var í lokaleikinn gegn verulega sterku liði Fílabeinsstrandarinnar, sem tapaðist líka.
Gabon endar mótið án stiga og með markatöluna 4-7. Mósambík fer áfram í útsláttarkeppnina ásamt Kamerún og Fílabeinsströndinni.
„Í ljósi skammarlegrar frammistöðu landsliðsins í Afríkukeppninni hefur ríkisstjórnin ákveðið að reka þjálfarateymið og leggja niður landsliðið um ókominn tíma. Auk þess eru Bruno Ecuele Manga og Pierre-Emerick Aubameyang útilokaðir. Þar að auki hvetur ríkisstjórnin fótboltasambandið í Gabon til þess að taka fulla ábyrgð," segir meðal annars í yfirlýsingu frá ríkisstjórninni.
Athugasemdir




