Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mið 12. janúar 2022 20:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Arnar Viðars: Í lagi að gera mistök en verðum að 'covera' hvorn annan
Icelandair
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Leikurinn spilaðist eins og við bjuggumst við," sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, eftir 1-1 jafntefli gegn Úganda í vináttulandsleik í dag.

„Við fengum greiningar frá Úganda. Það voru sjö leikmenn í byrjunarliðinu hjá þeim sem spiluðu flesta leikina í undankeppni sem þeir voru í. Þetta voru allt mjög lokaðir leikir og leikurinn spilaðist eins og við bjuggumst við. Hann var lokaður og ekki mikið af færum."

Ísland tók forystuna snemma en missti hana seint í fyrri hálfleik þegar Úganda jafnaði úr vítaspyrnu. Það voru ekki fleiri mörk skoruð í leiknum.

„Við byrjuðum vel og skorum gott mark. Það sem við töluðum mest um í hálfleik voru síðustu tuttugu mínútur í fyrri hálfleik þar sem við gefum víti - gerum aðeins of mörg mistök í aðdragandanum fyrir vítið - og við misstum tökin á einn og einn stöðunni, vinna einvígin og seinni boltann. Mér fannst við takast vel á við þá í seinni hálfleik. Þetta var mjög lokað, við fengum nokkur augnablik í seinni hálfleik þar sem við hefðum getað tekið sigurinn. Þetta spilaðist eins og við vissum að þetta gæti orðið."

Ákveðin pressa og ákveðið stress í gangi
Þetta er janúarverkefni og þá fá margir leikmenn tækifæri sem ekki hafa fengið tækifæri áður. Þetta eru ekki alþjóðlegir leikdagar og því eru margir af okkar sterkustu leikmönnum ekki með. Sex leikmenn í byrjunarliðinu voru að spila sinn fyrsta landsleik.

„Ég er mest ánægður með að það að þetta er A-landsleikur, það er ákveðin pressa og ákveðið stress í gangi. Ég er að leita að svörum, sjá hverjir taka skref upp á þetta stig (e. level). A-landsleikur er hærra stig en það sem leikmenn eru vanir; U21 landsleikur eða hjá félagsliði. Ég var mest sáttur við að fá jákvæð svör. Það eru að sjálfsögðu hlutir sem við verðum að laga og leikmenn þurfa að laga, en það er jákvætt að fá jákvæð svör frá strákunum sem eru að taka sín fyrstu skref í þessu."

Klaufalegt víti
Ari Leifsson gaf klaufalegt víti. Það er eitthvað sem hann verður að læra af og mun hann gera það með tímanum.

„Nákvæmlega, þetta er það sem við erum að tala um. Munurinn á þessu stigi og stiginu þar undir. Þetta er einn af þeim hlutum þar sem við verðum að taka stór skref í mjög fljótt - allir saman. Þetta snýst ekki um einstaklinginn, vítið sem við fáum á okkur í dag. Við gerum fjögur, fimm mistök áður en vítið er dæmt og það er of mikið. Að gera mistök er í lagi en við þurfum að 'covera' hvorn annan. Þetta er sá hluti sem við þurfum að laga hratt."

Arnór Ingvi fyrirliði
Arnór Ingvi Traustason var fyrirliði landsliðsins í fyrsta sinn í dag. Arnar var spurður út í þá ákvörðun að gefa honum bandið.

„Það voru átta leikmenn að spila sinn fyrsta landsleik í dag. Þó að þetta sé janúarverkefni og við getum ekki fengið alla leikmenn, þá er það samt mikið. Arnór er með mikla reynslu og hefur stigið upp í þessa daga sem við höfum verið hér saman. Hann er reyndur leikmaður, þó hann sé ekki gamall. Hann er búinn að vera mjög 'solid' og tekið ábyrgð í þessu verkefni. En að sjálfsögðu var ég líka búinn að pæla í þessu fyrirfram.".

Spila gegn Suður-Kóreu
Fimm leikmenn í hópnum komu ekki við sögu í dag. Ætlunin er að þeir spili gegn Suður-Kóreu um helgina.

„Það er ætlunin, það er að sjálfsögðu ætlunin að gefa öllum leik. Ég talaði til dæmis um Damir fyrir verkefnið; hann er búinn að heilla mig mikið. Það er ætlunin að allir spili... hvort allir byrji inn á eða ekki, við eigum eftir að meta skaðann og hvernig við setjum upp leikinn á móti Suður-Kóreu. Ætlunin er að láta alla spila,“ sagði Arnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner