fös 12. febrúar 2021 08:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Ekki margir markmenn sem spila á þessu getustigi svona ungir"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Reading
Axel Óskar Andrésson ræddi við Fótbolta.net á miðvikudagskvöldið. Hann var spurður út í vistaskipti sín frá Viking til Riga, hvaða áhrif það hefði á hans stöðu í landsliðinu, að hans mati, og loks um yngri bróður sinn.

Jökull Andrésson er þessa á stundina að láni hjá Exeter í League Two, ensku D-deildinni. Jökull er markvörður sem hafði fyrr á þessari leiktíð farið á neyðarlán til bæði Exeter og Morecambe áður en Exeter fékk hann til sín út tímabilið.

Axel og Jökull voru báðir á mála hjá Reading áður en Axel fór til Viking í desember 2018. Jökull er þar ennþá og hafði leikið með U23 liði félagsins áður en liðin í D-deildinni sýndu áhuga.

Annað úr viðtalinu við Axel:
„Mat möguleika mína varðandi landsliðið ekkert verri en í Noregi"
„Er ævintýrakall og elska að prófa nýja staði"

Hvernig er að fylgjast með þróun Jökuls?

„Það er bara magnað. Hann er ótrúlegur karakter, eins og hægt er að sjá á hlutunum sem hann sendir frá sér á netinu. Hann er þvílíkt elskaður hjá þessum liðum sem hann er að fara á lán til," sagði Axel.

„Að mínu mati, ég er auðvitað innanborðs - í fjölskyldunni, þá er hann framtíðar landsliðsmarkvörður. Ég hef séð karakterinn hans betur en allir og hann er með fulla einbeitingu á að komast sem lengst. Hann er þvílíkt vel tekinn á Englandi og umhverfið hentar honum rosalega vel. Hann er búinn að standa sig gríðarlega vel, alveg geggjaður."

„Hann fór til Exeter, svo til Morecambe og svo aftur til Exeter. Þetta eru bæði topplið í League Two og hann er nítján ára gamall. Það eru ekki margir markmenn sem spila á þessu getustigi svona ungir. Hvað þá sem útlendingur, ég þekkti það frá mínum tíma að fá lán sem útlendingur í neðri deildar er hrikalega erfitt. Að komast í League Two eða ofar, síðasti maður sem hefur gert það er Gylfi."


Spjallið þið reglulega saman?

„Jájájá, við erum eitt stykki, Andréssynir. Við kennum hvor öðrum. Hann flutti út til Englands og var þá í því að styðja mig (hjá Reading). Hann fær 100% sama stuðning frá mér og hann gaf mér á þeim tíma. Miðað vð aldurinn er hann á töluvert flottari stað en ég var á þessum aldri, hann er að gera hrikalega góða hluti. Við tölum saman á hverjum degi," sagði Axel að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner