Kerfisbreyting hjá Man Utd? - Nunez var nálægt Sádi - Stórlið vilja Dean Huijsen - Ratcliffe að reka fleiri?
banner
   mið 12. febrúar 2025 13:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Í nýtt hluverk hjá Norrköping - „Mjög þakklátur félaginu fyrir þetta tækifæri"
Ari Freyr.
Ari Freyr.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Spurning hvort Ari hendi sér í eina tæklingu á Birki í sumar?
Spurning hvort Ari hendi sér í eina tæklingu á Birki í sumar?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Magni Fannberg er yfirmaður íþróttamála, eða Sporting Director hjá Norrköping.
Magni Fannberg er yfirmaður íþróttamála, eða Sporting Director hjá Norrköping.
Mynd: Norrköping
Norrköping keypti Jónatan frá Fjölni.
Norrköping keypti Jónatan frá Fjölni.
Mynd: Norrköping
Fyrrum landsliðsmaðurinn Ari Freyr Skúlason er í dag þjálfari U19 ára liðs Norrköping og samhliða því er hann í þjálfarateymi Martin Fal hjá aðalliði félagsins. Ari þekkir mjög vel til hjá Norrköping því hann hefur verið í kringum félagið frá árinu 2021 þegar hann kom frá belgíska félaginu Oostende.

Ari lagði skóna á hilluna eftir tímabilið 2023 en spilaði reyndar nokkra leiki með varaliðinu, Sylvia, á síðasta tímabili.

Gæti spilað gegn Birki
„Ég er í raun í tvöföldu starfi þessa dagana, með U19 og í kringum aðalliðið. Þetta eru langir dagar, en bara gaman. Ég spilaði nokkra leiki í fyrra, aðeins að hjálpa til þegar það vantaði leikmenn," segir Ari.

Það er þekkt að Valsarar geta spilað lengi, og þá sérstaklega í Svíþjóð. Hinn fertugi Birkir Már Sævarsson ætlar að taka slaginn með Nacka í Svíþjóð á komandi tímabili.

„Það er spurning hvort maður ætti að segja að maður sé klár í leikina á móti þeim í deildinni, við erum í sömu deild. Ég þarf kannski að segja við þjálfarann að ég verði í hóp í þeim leik. Það væri geggjað að enda ferilinn á að tækla góðan vin sinn og segja svo 'bless, ég er hættur'."

Þakklátur Norrköping fyrir tækifærið
Ari er ánægður með að vera kominn í stórt hlutverk hjá Norrköping.

„Þetta er mjög gaman, búinn að vera strembinn mánuður. Þetta er 8-20 flestalla daga, mjög mikill fótbolti, fundir, mikið að skipuleggja og allt svoleiðis. Svo er maður með tvo stráka sem eru í fótbolta, það er því endalaus fótbolti í gangi. Þetta starf leggst mjög vel í mig, ég þarf að læra fullt og þetta er fullkomið skref til að fá að gera það. Ég þar fað fá að gera mín mistök og læra af þeim. Ég er mjög þakklátur félaginu fyrir þetta tækifæri."

„Magni Fannberg setti upp plan fyrir Sylvia og U19 liðið, að reyna komast eins nálægt aðalliðinu og hægt er. Ég var í 'transition' hlutverki í fyrra, í því að hjálpa mönnum að taka skrefið upp í aðalliðið. Það var mjög loðið hlutverk þannig Magna fannst betra að ég færi í annað hlutverk til þess svo að koma bæði U19 strákunum og þeim sem eru í Sylvia nær aðalliðinu. Ég er með teyminu hjá aðalliðinu og góð tenging á milli mín og aðalþjálfarans. Það er gott fyrir yngri strákana, U19 strákarnir vita að næsta skref er annað hvort að fara í varaliðið eða beint í aðalliðið."

„Umgjörðin í kringum ungu strákana er mjög góð, sá sem var með U19 tók við U17 svo teymið í heild er mjög gott. Gamla Norrköping var þannig að spilað var á ungum efnilegum strákum og þeir svo seldir, það er planið að fara aftur í það."


Kemur í ljós hvar Jónatan mun spila
Jónatan Guðni Arnarsson kom til Norrköping frá Fjölni í vetur. Hann er 18 ára unglingalandsliðsmaður.

„Það er spurning hvernig við leggjum hlutina upp fyrir hann, eins og staðan er núna þá er hann alfarið með aðalliðinu, að koma sér í eins gott form og mögulegt er. Svo sjáum við hvar sé best fyrir hann að fá leikina. Við erum með aðalliðið, varaliðið Sylvia sem er í þriðju efstu deild og svo með U19 liðið."

Gaman að hjálpa yngri strákum að taka næstu skref
Hvað langar þig að gera í framtíðinni, hver er draumurinn?

„Ég elska fótbolta, það skemmtilegasta sem ég veit um er að vera úti á velli að leika mér með bolta. Ég er ekki búinn að setja mér neitt langtímamarkmið, tek þessu bara rólega og ef ég verð með U19 þangað til ég verð sextugur þá er það bara þannig. Það sem mér finnst gefa mér mest er að vinna í kringum U16-U19 stráka, mér finnst þeir taka best við upplýsingum, það er hægt að móta þá og í mínu hlutverki í kringum aðalliðið getur maður hjálpað þeim þegar þeir eru komnir þangað," segir Ari.
Athugasemdir
banner
banner