Rashford vill fara til Barcelona - Man Utd gæti reynt að skipta á Rashford og Osimhen - Ferguson og Williams orðaðir við Arsenal
banner
   mið 12. maí 2021 14:08
Ívan Guðjón Baldursson
Afturelding fær Albert Serrán - Á leiki fyrir Espanyol og Swansea
Lengjudeildin
Mynd: Afturelding
Mynd: Raggi Óla
Afturelding var að krækja í spænskan varnarmann sem verður 37 ára gamall í sumar. Sá heitir Albert Serrán Polo og á 42 leiki að baki fyrir Swansea City.

Albert Serrán ólst upp hjá Espanyol og á þrjá leiki að baki í La Liga. Hann hjálpaði Swansea að komast upp úr Championship deildinni 2011 en undanfarinn áratug hefur hann spilað í efstu deildum í Kýpur, Albaníu, Marokkó og Indlandi. Á Indlandi vann hann Ofurdeildina með Bengaluru.

Hann mun vera mikill liðsstyrkur fyrir Aftureldingu sem gerði 1-1 jafntefli við Kórdrengi í fyrstu umferð nýs tímabils í Lengjudeildinni.

„Ég er hæstánægður með að vera orðinn hluti af Aftureldingu og er mjög spenntur að byrja þetta nýja ævintýri. Ég vonast til að við getum náð sem bestum árangri saman sem lið," sagði Albert eftir að hafa skrifað undir.

Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, er ánægður með liðsstyrkinn.

„Við höfum verið í leit að reyndum varnarmanni í talsverðan tíma og fögnum því að hafa náð að sannfæra Albert um að taka eitt ævintýri til viðbótar á ferli sínum. Albert hefur gríðarlega reynslu og mun geta miðlað henni og hjálpað samherjum sínum að verða ennþá betri. Við erum mjög ánægðir með að vera með breiðan og góðan leikmannahóp fyrir sumarið."
Athugasemdir
banner
banner
banner