
Sveinn Aron Guðjohnsen, elsti sonur Eiðs Smára Guðjohnsen, hefur spilað mikið með HK í Inkasso-deildinni í sumar og um síðustu helgi skoraði hann tvívegis gegn Fjarðabyggð. Eiður segist reyna að fylgjast með framgangi Sveins Arons á Íslandi.
„Eins mikið og ég get, það er ekki auðvelt þegar ég er erlendis en ég fylgist með beinni textalýsingu. Hann hefur tekið miklum framförum síðan hann kom til Íslands, það hefur gert honum mjög gott að spila með meistaraflokki HK," sagði Eiður við Fótbolta.net í gær.
Sveinn Aron er 18 ára gamall en hann hefur verið að spila á kantinum hjá HK. „Hann er miklu stærri en ég og allt öðruvísi en ég. Hann er mjög áræðinn og ákveðinn. Hann er búinn að taka líkamlegan þroska," sagði Eiður en erlend félög hafa verið að fylgjast með Sveini.
„Það er eitthvað verið að fylgjast með en það er eins og með alla stráka en ég tel það gott að hann fái leiki með meistaraflokki HK. "
Eiður kom inn á fyrir Arnór Guðjohnsen, föður sinn, í landsleik á sínum tíma. Eiður telur ólíklegt að hann nái að spila leik með Sveini áður en ferlinum lýkur.
„Ég tel ekki miklar líkur á við náum leik saman. Ég sé ekki fyrir mér að ég muni spila á Íslandi þegar ég lýk atvinnumannaferlinum."
Eiður á þrjá syni en þeir eru allir að æfa fótbolta. „Þeir standa sig allir frábærlega. Þeir hafa mikinn áhuga. Þeir hafa allir fengið áhugann um leið og þeir byrja að labba. Það er frábært. Ég er ekki mjög upptekinn af því hvot þeir verði atvinnumenn eða ekki, það verður að skýrast,"
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir