mán 12. júlí 2021 10:43
Elvar Geir Magnússon
Southgate alveg uppgefinn - Vill stýra Englandi í Katar
Mynd: Getty Images
Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, segist vonast til að stýra enska landsliðinu á HM í Katar 2022 en hann þurfi hvíld áður en hann er klár í viðræður um nýjan samning.

Hann er samningsbundinn út HM 2022 en enska knattspyrnusambandið vill framlengja þann samning.

„Ég vil taka þetta lið til Katar. Auðvitað þurfum við að komast á mótið. Ég þarf smá tíma til að horfa aftur á leikinn í gær og gera upp þetta mót," sagði Southgate á fréttamannafundi í morgun.

„Ég þarf hvíld. Það er ótrúleg upplifun að stýra þjóð sinni á svona mótum en það tekur sinn toll."

Southgate var augljóslega alveg uppgefinn þegar hann ræddi við fjölmiðla um hálfum sólahring eftir dramatískt tap í úrslitaleik EM alls staðar, gegn Ítalíu á Wembley.

„Mér finnst við hafa tekið framförum á fjórum árum. Margir hlutir hafa verið gerðir á réttan hátt og við vitum að þetta lið er ekki búið að ná toppnum enn," sagði Southgate.

„Þegar þú ert í íþróttum og nærð að komast í úrslitaleik sem er
svona sjaldgæfur, kemst svona nálægt sigri, þá er dagurinn eftir leikinn mjög erfiður. Það er auðvelt að segja að við getum farið á HM í Katar og unnið. Við þurfum að komast á mótið, hringrásin þarf að hefjast á ný. En það hefur verið stórkostlegt að vinna með þessum leikmönnum á hverjum degi, svo þegar mótinu lýkur á þennan hátt er erfiður dagur."

Athugasemdir
banner
banner