Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   þri 12. október 2021 12:21
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Stefán Teitur tekið mjög stór skref á sínum ferli - „Hlýtur að vera geggjað"
Icelandair
Markinu í gær fagnað.
Markinu í gær fagnað.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eðlilega ánægður!
Eðlilega ánægður!
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stefán Teitur Þórðarson lék sinn fyrsta keppnisleik fyrir íslenska landsliðið í gær. Stefán skoraði fyrsta mark leiksins með skalla eftir fyrirgjöf Jóns Dags Þorsteinssonar.

Mikill uppgangur hefur verið á ferli Stefáns að undanförnu. Hann fór úr því að vera byrjunarliðsmaður hjá ÍA í að vera algjör lykilmaður hjá liðinu. Hann fór svo til Silkeborg í Danmörku, tók smá tíma að vinna sig inn í byrjunarliðið, fór upp um deild með liðinu og er að spila vel í Superliga.

Landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson var spurður út í Stefán Teit. Hann virtist rosalega ánægður með Stefán þegar hann tók hann af velli, klappaði honum lof í lófa.

„Ég gerði það sama þegar Viðar Örn kom út af og gerði það sama með alla," sagði Arnar léttur. „Ég var mjög ánægður með Stefán Teit og eins og ég sagði áðan þá var ég mjög ánægður með Viðar Örn."

„Þau skref sem Stefán Teitur hefur verið að taka undanfarið eru mjög stór. Hann fer úr því að vera einn af ellefu í ÍA, verður einn af þeim sem þurfti að draga Skagaliðið tímabilið þar á eftir. Hann spilaði mjög vel alla undankeppnina í U21, hann tekur lokakeppnina með U21, tekur skrefið út í atvinnumennsku og fer í dönsku B-deildina. Hann gerir það mjög vel og liðið fer upp. Hann er að spila mjög vel núna í efstu deild í Danmörku."

„Það eru þessi skref, ég hef talað um að leikmenn þurfi að taka öll skrefin áður en þeir eru orðnir A-landsliðsmenn, hann er að taka þessi skref núna. Hann er orðinn 23 ára og er að detta inn á þann aldur þar sem menn þurfa að vera klárir fyrir A-landsliðið."

„Alfons er nákvæmlega sama dæmi, fer út ungur, kemur aðeins til baka til Blikana, fer til Noregs og verður Noregsmeistari. Hann spilaði marga leiki með U21 og við tökum hann inn í mars. Þá spilaði hann gegn Þýskalandi en er búinn að sitja á bekknum síðan."

„Ef við gætum gert þetta með alla ungu leikmennina okkar þá væru þeir akkúrat tilbúnir í kringum þennan aldur, 22-24. Eins og Birkir Bjarna sagði á fundi fyrir nokkrum dögum, hann spilaði sinn fyrsta leik 22 ára."

„Við erum bara ekki alveg í þeirri stöðu núna að geta leyft öllum að taka þessi skref. Þess vegna er ég ánægður með Stefán Teit, hann fær sénsinn, spilaði vel, skorar mark - það hlýtur að vera geggjað. Ég skoraði ekki það mörg mörk en þegar maður gerði það þá var það alveg geggjað,"
sagði Arnar.
Athugasemdir
banner
banner