Það var nóg um að vera í kvennaboltanum í dag þar sem nokkrar íslenskar atvinnukomur komu við sögu víðsvegar um Evrópu.
Í efstu deild þýska boltans var risaslagur þegar Wolfsburg fékk FC Bayern í heimsókn og var Glódís Perla Viggósdóttir í byrjunarliði gestanna, á meðan Sveindís Jane Jónsdóttir byrjaði á bekknum hjá heimakonum.
Leikurinn var jafn en Wolfsburg nýtti færin sín betur og skóp að lokum 2-0 sigur. Sveindís Jane fékk að spila síðasta stundarfjórðunginn.
Bayern er áfram á toppi deildarinnar þrátt fyrir tap, með 15 stig eftir 6 umferðir. Wolfsburg er í fjórða sæti með 13 stig.
Í ítalska boltanum var Alexandra Jóhannsdóttir á sínum stað í byrjunarliði Fiorentina sem vann 1-3 sigur gegn Sassuolo á meðan Inter lagði Como að velli.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir sat á bekknum hjá Inter en hún hefur byrjað fjóra af sex leikjum liðsins hingað til. Inter er í þriðja sæti með 14 stig eftir 6 umferðir á meðan Fiorentina er í öðru sæti með 15 stig.
Í Noregi átti Sædís Rún Heiðarsdóttir stoðsendingu í þægilegum sigri Vålerenga gegn Lyn, en Vålerenga er aðeins einum sigri frá því að tryggja sér Noregsmeistaratitilinn. Liðið er með 63 stig eftir 23 umferðir, ellefu stigum meira en Brann sem er í öðru sæti.
Brann vann 3-0 gegn Irisi Ómarsdóttur og stöllum hennar í liði Stabæk, sem sigla lygnan sjó um miðja deild, á meðan Selma Sól Magnúsdóttir og Ásdís Karen Halldórsdóttir áttust við í áhugaverðum slag.
Rosenborg tapaði þar á heimavelli gegn Lilleström - sem klifrar uppfyrir Rosenborg og í þriðja sæti deildarinnar.
Í sænska boltanum vann Íslendingalið Örebro mikilvægan sigur í fallbaráttunni gegn botnliði Trelleborg og er núna aðeins einum sigri frá öruggu sæti í deild, þegar þrjár umferðir eru eftir af tímabilinu.
Katla María Þórðardóttir og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir voru báðar í byrjunarliði Örebro, sem er komið með 19 stig eftir 23 umferðir.
Guðrún Arnardóttir var þá á sínum stað í ógnarsterku byrjunarliði Rosengård sem er búið að sigra alla leiki sína hingað til á deildartímabilinu.
Rosengård er búið að vinna sænsku deildina og lagði Norrköping að velli í dag. Liðið er aðeins þremur sigrum frá því að vinna alla leikina á deildartímabilinu sem væri ótrúlegur árangur.
Sigdís Eva Bárðardóttir var ónotaður varamaður í liði Norrköping, sem er með 35 stig eftir 23 umferðir og á ekki möguleika á Evrópusæti.
María Catharina Ólafsdóttir Gros var þá í byrjunarliði Linköping sem steinlá á útivelli gegn Häcken og tapaði 8-1. Linköping er sjö stigum frá fallsæti þegar þrjár umferðir eru eftir.
Að lokum var Regielly Halldorsdottir ónotaður varamaður í góðum sigri Gdansk gegn Skra í efstu deild kvenna í Póllandi. Gdansk er þar með 10 stig eftir 8 umferðir.
Wolfsburg 2 - 0 Bayern
1-0 Vivien Endemann ('5)
2-0 Lineth Beerensteyn ('67)
Sassuolo 1 - 3 Fiorentina
Como 0 - 1 Inter
Brann 3 - 0 Stabæk
Rosenborg 1 - 2 Lillestrom
Valerenga 3 - 0 Lyn
Trelleborg 2 - 3 Orebro
Norrkoping 0 - 1 Rosengard
Hacken 8 - 1 Linkoping
Gdansk 3 - 0 Skra
Athugasemdir