Hlusta á tilboð í Mateta næsta sumar - Mainoo efstur á óskalista Napoli - Ungur Þjóðverji á blaði hjá Liverpool og Man Utd
   fim 04. desember 2025 12:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Siggi Höskulds: Þórsarar beðið lengi eftir því að hann flytji aftur norður
Atli í leik með Þór árið 2011.
Atli í leik með Þór árið 2011.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Ágúst er mættur í Þór.
Ágúst er mættur í Þór.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þór er þannig félag að það eru sterk tengsl milli leikmannahóps og stuðningsmanna.'
'Þór er þannig félag að það eru sterk tengsl milli leikmannahóps og stuðningsmanna.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Siggi Höskulds og Atli Sigurjóns.
Siggi Höskulds og Atli Sigurjóns.
Mynd: Ármann Hinrik
Þór tilkynnti um liðna helgi um komu tveggja leikmanna til félagsins. Þeir Atli Sigurjónsson og Ágúst Eðvald Hlynsson eru mættir aftur til félagsins en báðir eru þeir í grunninn Þórsarar. Atli fór í gegnum alla yngri flokkana og lék með meistaraflokki áður en hann hélt suður til að spila með KR. Ágúst fór í fimmta flokki í Breiðabliks og þaðan út til Englands og svo Danmerkur.

Atli kemur frá KR þar sem hann varð tvisvar Íslandsmeistari og tvisvar bikarmeistari. Ágúst kemur frá Vestra þar sem hann varð bikarmeistari í ágúst.

Fótbolti.net ræddi við Sigurð Heiðar Höskuldsson, þjálfara Þórs, um komu nýju leikmannanna.

„Það er frábært að fá Atla loksins heim. Þórsarar hafa beðið lengi eftir því að Atli flytji aftur norður og loksins er komið að því. Atli náttúrulega gefur okkur þvílíka reynslu úr efstu deild. Við sem hópur og félag þurfum að nýta okkur það til fullnustu. Hann er að sjálfsögðu hugsaður í stóru hlutverki hjá okkur, bæði innan sem utan vallar, býr yfir gæðum sem ég held að flest lið vilja hafa í sínum liðum," segir þjálfarinn.

„Eins og með Atla þá býr Gústi yfir mikilli reynslu, bæði í efstu deild og erlendis. Gústi er gríðarlega duglegur leikmaður sem smitar út frá sér. Við vorum í leit að leikmanni með mikla hlaupagetu og góðan í þessum “transition momentum” og töldum við hann sem allra besta kostinn í það. Þess vegna erum við gríðarlega ánægðir með að hafa náð að sannfæra hann um að koma aftur heim í Þorpið, sérstaklega þar sem það voru fleiri lið í deildinni sem sóttust hart á eftir honum."

Er mikilvægt í þessu að þetta eru tveir Þórsarar?

„Já, það er mikilvægt. Þórsarar eru mjög stoltir af sínum mönnum og vilja sjá þá sem flesta í fallegu hvítu treyjunni. Þór er þannig félag að það eru sterk tengsl milli leikmannahóps og stuðningsmanna. Stefna félagsins er að kjarni liðsins séu uppaldir leikmenn og því mikilvægt að við séum duglegir að vinna í því að fá Þórsara aftur heim."

Planið er að fylla allavega í þau göt
Hvað er næst á döfinni hjá Þór, hvaða stöður er verið að horfa í að þurfi mögulega að styrkja?

„Við höfum misst fjóra mikilvæga leikmenn og eigum ennþá eftir að fylla í allavega tvö göt sem þeir skilja eftir. Planið er að fylla allavega í þau göt og erum að skoða hvað er í boði. Að auki eru að koma upp efnilegir leikmenn úr okkar öfluga yngri flokka starfi sem við höfum miklar væntingar til."

Þeir Rafael Victor (framherji), Clement Bayiha (kantmaður), Orri Sigurjónsson (miðjumaður) og Juan Guardia (varnarmaður) eru þeir fjórir leikmenn sem hafa farið frá Þór í vetur.

Þórsarar æfðu og spiluðu í Boganum á liðnu tímabili. Nú er hins vegar komið gervigras fyrir utan Bogann sem liðið mun spila á á næta tímabili.

Leikbreytir að fá gervigrasið
Eruð Þórsarar byrjaðir að æfa á gervigrasinu fyrir utan Bogann?

„Það er mikill leikbreytir að fá gervigrasið. Það er smá bras á hitanum undir honum eins og er svo að við höfum ekki komist mikið út á það því miður. En þessar fáu æfingar sem við höfum fengið hafa verið mjög kærkomnar. Það vilja allir að sjálfsögðu æfa og spila utandyra," segir Siggi.
Athugasemdir