Hlusta á tilboð í Mateta næsta sumar - Mainoo efstur á óskalista Napoli - Ungur Þjóðverji á blaði hjá Liverpool og Man Utd
   fim 04. desember 2025 16:40
Elvar Geir Magnússon
Albert tjáir sig: Læt ekki kúga mig fyrir eitthvað sem aldrei gerðist
Albert í leik með landsliðinu.
Albert í leik með landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Albert í leik með Fiorentina.
Albert í leik með Fiorentina.
Mynd: EPA
Landsliðsmaðurinn Albert Guðmundsson, leikmaður Fiorentina, segir að það hafi tekið á andlega og líkamlega að hafa verið undir smásjá fjölmiðla þann tíma sem hann var ásakaður um nauðgun. Hann segir málið hafa komið í veg fyrir mörg tækifæri í boltanum.

„Ég var þarna, ég man allt og ég veit hvað er satt og rétt," skrifar Albert á Instagram þar sem hann tjáir sig í fyrsta sinn eftir að hafa verið sýknaður í Landsrétti.

Hann segist hafa misst fólk sem reyndist aðeins vera vinir hans þegar það hentaði þeim. Hér að neðan má sjá skrif hans í heild sinni:



Hef misst fólk sem reyndist bara vinir þegar það hentaði þeim
Skrif Alberts í heild sinni:

Þá er þessu máli endanlega lokið.
Nú eru 893 dagar liðnir síðan atvikin áttu sér stað. Ég var þarna, ég man allt og ég veit hvað er satt og rétt.
Ég er ánægður að sjá Landsrétt staðfesta niðurstöðuna sem Héraðsdómur komst áður að – og ekki má gleyma að héraðssaksóknari felldi málið einnig niður á sínum tíma. Þetta kalla ég sannfærandi 3–0 sigur í minni vinnu.

En samt sit ég hér, tæpum þremur árum seinna, eftir að hafa verið undir smásjá fjölmiðla nánast daglega allan þennan tíma. Það hefur tekið á – bæði andlega og líkamlega. Þetta mál hefur komið í veg fyrir mörg tækifæri í fótboltanum; eins og allir vita er ferillinn stuttur og hvert ár, hver mánuður og jafnvel hver dagur dýrmætur.
Ég er þó ekki að biðja um vorkunn. Það sem hélt mér gangandi voru mínir nánustu. Börnin mín, barnsmóðir mín, foreldrar mínir, systur mínar, fjölskyldan og vinir. Þið eruð hetjurnar í þessu ferli. Ég get aldrei þakkað ykkur nóg.

Á hinn bóginn hef ég líka misst fólk sem reyndist aðeins vera vinir þegar það hentaði þeim – en ekki þegar á þurfti að halda. Það særði, en það var líka gott að átta sig á því fyrr en síðar.
Á móti stóðu aðrir með mér og sýndu mér hvað sönn vinátta er. Þeim er ég innilega þakklátur.

Ég veit að það er fólk þarna úti sem mun ekki trúa mér, sama hvað gögn málsins eða niðurstöður sýna – og það er í góðu lagi. Ég veit hver ég er og fyrir hvað ég stend. Skoðun annarra mun aldrei brjóta mig.

Til ykkar sem enn eruð í vafa hvet ég ykkur til að lesa dóma beggja dómstiga og hafa í huga að samkvæmt gögnum málsins voru fleiri en bara ég ásakaðir þetta umrædda kvöld. Ég læt þó ekki kúga mig, sérstaklega ekki fyrir eitthvað sem aldrei gerðist. Við getum farið nánar út í það síðar ef þarf.

Ég vona einlæglega að þótt eitt skemmt epli hafi verið þarna úti, þá skemmi það ekki fyrir þeim sem eru raunveruleg fórnarlömb ofbeldis.

Ekki meira í bili — peace




Athugasemdir
banner
banner