Robert de Pauw var rekinn úr starfi knattspyrnustjóra kvennaliðs Aston Villa í gær, nokkrum klukukstundum áður en liðið mætti Charlton í deildabikarleik.
Enskir fjölmiðlar höfðu gert að því skóna á þriðjudaginn að dagar hans kynnu að vera allir hjá félaginu en hann hafði ekki stýrt síðustu æfingunni fyrir leikinn þann dag.
Guardian sagði í gær að ástæða þess að hann hafi verið látinn fara hafi tengst því hvernig hann talaði við leikmenn liðsins, þar á meðal um frammmistöðu þeirra. Innan félagsins hafi fólki þótt nóg um hversu ófaglega hann nálgaðist leikmenn.
Færsla De Pauw á LinkedIn í gær vakti reyndar mikla athygli en þar nefndi hann Aston Villa aldrei á nafn heldur sagði:
„Það erfiðasta við að vera knattspyrnustjóri eru margar ákvarðanir sem þarf að taka á hverjum degi. Til styttri tíma, og lengri. Vinsælar ákvarðanir og óvinsælar ákvarðanir. Vikulega þarf að valda leikmönnum vonbrigðum því það er bara hægt að spila 11 en þarf að valda 14 öðrum vonbrigðum," skrifaði hann og hélt svo áfram.
„Maður þarf stuðning félagsins ef liðið þarf að vinna sig úr því að vera miðlungs yfir í að vera gott og svo á toppinn. Þessi umbreyting og þróun liðs er nauðsynleg til að taka þessi skref. Ég gerði þetta síðustu tvö tímabil hjá Leverkusen þegar ég valdi af fótboltalegum ástæðum, hegðun og eftir karakter leikmanna. Ég reyni aldrei að koma mér undan erfiðum ákvörðunum og mun örugglega ekki vinna vinsældarkeppnir. Því það er aldrei hægt að þóknast öllum, en þarf alltaf að hafa standardinn háan og ná því besta út úr liðunu og hvoru öðru."
Pauw sem er 43 ára gamall gerði þriggja ára samning við Aston Villa í júní en Elísabet Gunnarsdóttir hafði lengi verið orðuð við starfið. Aston Villa er í 9. sæti deildarinnar, stigi frá fallsæti. Shaun Goater fyrrverandi framherji Man City stýrir liðinu tímabundið.
Athugasemdir