Gianluca Mancini, varnarmaður AS Roma á Ítalíu, heldur áfram að spila frábærlega en þessi ítalski miðvörður hefur skorað í tveimur leikjum í röð gegn Lazio og AC Milan og tryggt Rómverjum 1-0 sigra.
Mancini var í sviðsljósinu þegar hann skoraði sigurmarkið í grannaslagnum gegn Lazio um síðustu helgi og í kjölfarið sveiflaði hann rottufána sem dró dilk á eftir sér.
Roma og Milan áttust við á San Siro í fyrradag í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar og var það mark Mancini sem skildi liðin að fyrir næsta leik í Róm á fimmtudaginn kemur.
„Þvílík vika, ekki í mínum villtustu draumum óraði mig fyrir þessu. Sigurmark í nágrannaslag og annað sigurmark á útivelli gegn AC Milan. Ég vil lifa í nútíðinni,” sagði Mancini.
„Í leiknum horfði ég á bestu leikmenn liðsins, Lukaku, Dybala og Pellegrini elta leikmenn út um allan völl, berjast og henda sér í tæklingar án hræðslu. Það var stórkostlegt að sjá þetta.”
„Einvígið er ekki búið, það eru 90 mínútur eftir en nú einbeitum við okkur aftur að deildinni.”
Roma mætir Udinese í deildinni á sunnudaginn kemur áður en AC Milan fer í heimsókn á Stadio Olimpico á fimmtudaginn.