Þýska B-deildarliðið Fortuna Düsseldorf eygir enn von um að komast upp í úrvalsdeild fyrir næstu leiktíð eftir 2-1 sigur liðsins á Paderborn í dag.
Landsliðsmaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson var fjarri góðu gamni í leiknum í dag en Valgeir Lunddal Friðriksson var í hópnum og kom inn af bekknum á lokamínútunum í lið Düsseldorf.
Sigurinn kom liðinu upp í 4. sæti deildarinnar með 47 stig, jafnmörg og Elverbergs sem situr í umspilssæti þegar fimm umferðir eru eftir.
Það lið sem hafnar í 3. sæti deildarinnar fer í umspil gegn þriðja neðsta liði úrvalsdeildarinnar í lok tímabils.
Hólmbert Aron Friðjónsson byrjaði hjá Preussen Münster sem gerði 1-1 jafntefli við Karlsruher. Hólmbert er í allt öðruvísi baráttu en hinir Íslendingarnir en hann og liðsfélagar hans sitja í 16. sæti deildarinnar með 28 stig og í hættu á að falla niður um deild.
Andri Lucas Guðjohnsen kom inn af bekknum undir lok leiks í 1-0 sigri Gent á Antwerp í meistarariðli belgísku úrvalsdeildarinnar. Gent er í næst neðsta sæti riðilsins með 26 stig.
Kolbeinn Birgir Finnsson hafði betur gegn Brynjólfi Andersen Willumssyni í Íslendingaslag er Utrecht og Groningen mættust. Kolbeinn var ónotaður varamaður hjá Utrecht en Brynjólfur kom inn á hjá Groningen í seinni hálfleik. Lokatölur urðu 3-1 Utrecht í vil en liðið situr í 4. sæti með 56 stig á meðan Groningen er í 13. sæti með 32 stig.
Kolbeinn Þórðarson vann annan leikinn í röð með Gautaborg er liðið lagði Värnamo að velli, 1-0, á útivelli. Blikinn kom inn af bekknum þegar hálftími var eftir og er Gautaborg með sex stig eftir fyrstu þrjár umferðir sænsku úrvalsdeildarinnar.
Kristófer Jónsson spilaði allan leikinn með Triestina sem tapaði fyrir Padova, 1-0, í C-deildinni á Ítalíu. Triestina er í 17. sæti A-riðils með 36 stig og er líklega á leið í fallumspil, en aðeins tvær umferðir eru eftir af deildinni.
Athugasemdir