Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 13. júlí 2021 14:54
Fótbolti.net
Heimild: Mín skoðun 
Telur að Skagamenn þurfi að leita til Sigga Jóns
Sigurður Jónsson.
Sigurður Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Þórhallur Dan.
Þórhallur Dan.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórhallur Dan Jóhannsson telur að ÍA þurfi að reyna að fá Sigurð Jónsson til að aðstoða við að rétta gengi liðsins við. Þórhallur ræddi við Valtý Björn Valtýsson í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun.

Fjallað var um slæma stöðu ÍA en liðið tapaði fyrir Leikni í gær og er aðeins með sex stig á botni deildarinnar.

„Skagaliðið hefur ekki verið líkt sjálfu sér í þessu móti. Þú mátt ekki gleyma því, og ég held að Jóhannes Karl þurfi núna að bíta í neðri vörina á sér, þú ert með Sigga Jóns á Skaganum. Ég held að Skagamenn þurfi að taka höndum saman og leita allra leiða til að snúa þessu við," segir Þórhallur.

„Ef það er ekki hægt að nota Sigga Jóns í það þá eru Skagamenn í slæmum málum. Ég held að Skagamennirnir verði að leita inn á við og athuga hvort Siggi geti ekki komið inn í þetta."

Sigurður er þjálfari 2. flokks ÍA en hann var aðstoðarmaður Jóhannesar Karls Guðjónssonar, þjálfara Skagamanna, en hætti í því starfi fyrir tímabilið í fyrra. Þórhallur telur að liðið þurfi á því að halda að fá Sigurð aftur inn. Sögusagnir voru um að eitthvað ósætti hefði verið í samstarfi Jóhannesar og Sigurðar.

„Þeir voru að vinna saman en ef menn eru eitthvað ósáttir þá þarf að leggja það til hliðar til að snúa þessu gengi við. Það er rosalega mikilvægt fyrir Skagann að vera í úrvalsdeild," segir Þórhallur í Mín skoðun.

„Siggi er einn mesti fótboltahaus sem við eigum á Íslandi. Ég held að menn þurfi að taka eitt skref til baka, leggja ágreining til hliðar og reyna að vinna í lausnum. Það þarf að sækja alla þá þekkingu sem er til uppi á Skaga til að snúa þessu við. Liðin hans Sigga hafa verið vel spilandi með mikla áherslu á að spila fótbolta en það er samt kraftur í liðunum."



ÍA mætir Íslandsmeisturum Vals á laugardaginn á Norðurálsvellinum.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner