Ítalska félagið Como ætlar sér stóra hluti á komandi leiktíð eftir að hafa tryggt sér sæti í efstu deild, Serie A. Þrír spænskir leikmenn eru á leið til félagsins.
Tveir þeirra eru markverðir, þar sem Pau López kemur úr röðum Marseille á meðan Pepe Reina kemur á frjálsri sölu.
López er 29 ára gamall og var hjá AS Roma áður en hann skipti yfir til Marseille, þar sem hann er aðalmarkvörður. Marseille er þó tilbúið til að selja leikmanninn, sem myndi fara til Como á lánssamningi til að byrja með.
Bakvörðurinn Alberto Moreno er þá einnig á leiðinni en hann er 32 ára og kemur úr röðum Villarreal. Hann er vel þekktur í fótboltaheiminum eftir að hafa verið hjá Sevilla í tvö ár og svo hjá Liverpool í fimm ár.
Moreno hefur unnið Evrópudeildina með Sevilla og Villarreal, auk þess að vinna Meistaradeildina með Liverpool. Þá var hann lykilmaður í U21 liði Spánverja sem vann EM 2013.
Franski miðvörðurinn Raphaël Varane er einnig í viðræðum við Como.
Athugasemdir