Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 13. október 2020 10:20
Magnús Már Einarsson
Rúnar Alex: Fyrsta símtalið sem ég fékk var ótrúlegt
Rúnar Alex Rúnarsson
Rúnar Alex Rúnarsson
Mynd: Arsenal
„Fyrsta símtalið sem ég fékk var ótrúlegt. Ég trúði því ekki að þetta væri að gerast. Núna er ég farinn að venjast því að ég sé að spila fyrir svona ótrúlegt félag," segir Rúnar Alex Rúnarsson í viðtali við Goal í dag en þar talar hann um félagaskipti sín til Arsenal.

Rúnar Alex kom til Arsenal frá Dijon á dögunum eftir að skytturnar seldu varamarkvörðinn Emiliano Martinez til Aston Villa á 20 milljónir punda.

„Ég las viðtal við hann fyrir nokkrum dögum og hann sagðist hafa verið níundi í röðinni yfir markverði hjá Arsenal en hann lagði gríðarlega hart að sér til að verða aðalmarkvörður þegar Leno meiddist á síðasta tímabili. Síðan fær hann frábær félagaskipti til Aston Villa á 20 milljónir punda. Þetta ætti að veita öllum innblástur, ekki bara mér. Þetta er það sem ég ætla að gera, leggja mjög hart að mér, njóta hverrar mínútu og fá eins marga leiki og ég get," sagði Rúnar Alex.

Rúnar Alex segist hafa rætt við Mikel Arteta, stjóra Arsenal, og aðra hjá félaginu áður en hann skrifaði undir.

„Ég ræddi við alla: Edu, Mikel og Inaki (Cana, markmannsþjálfara). Þeir þurftu ekki að sannfæra mig of mikið en ég vildi heyra þeirra áætlanir fyrir mig því að ég er á besta aldri sem fótboltamaður. Það var mikilvægt fyrir mig að þeir séu að hugsa eins og ég."

„Þetta gerðist allt fljótt. Ég fór í læknisskoðun og fór síðan í lest til Arsenal til að ganga frá smáatriðum og skrifa undir. Þegar þú ferð í stórt félag og þarft að aðlagast eins fljótt og hægt er þá máttu ekki við neinum mistökum."

„Ég veit að þetta verður erfitt en ég mun leggja hart að mér hverja einustu mínútu og gera það sem er nauðsynlegt til að fá sem flesta leiki. Sá eini sem ég get treyst á er ég sjálfur. Ég veit það og mun reyna það."


Rúnar Alex hefur verið á bekknum í síðustu tveimur leikjum íslenska landsliðsins en hann gæti byrjað gegn Belgum á morgun.
Athugasemdir
banner