Tómas Orri Róbertsson hefur að undanförnu æft með FH og ákvörðun verður tekin í næstu viku hvort að félagið semji við miðjumanninn. Tómas er án félags eftir að hann og Breiðablik komust að samkomulagi um að hann mætti leita annað.
Hann er sóknarsinnaður miðjumaður sem fæddur er árið 2004 og hefur síðustu tvö tímabil spilað í Lengjudeildinni.
Hann er sóknarsinnaður miðjumaður sem fæddur er árið 2004 og hefur síðustu tvö tímabil spilað í Lengjudeildinni.
„Hann búinn að vera hjá okkur í u.þ.b. tvær vikur og er búinn að standa sig mjög vel. Við munum taka ákvörðun í byrjun næstu viku hvernig við og hann sjáum hlutina," segir Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður fótboltamála hjá FH.
FH á leik í Lengjubikarnum gegn Aftureldingu í kvöld en Tómas má ekki spila í þeim leik þar sem hann er ekki skráður í FH. Leikurinn í kvöld fer fram í Skessunni og hefst klukkan 18:30.
Hvernig stendur miðvarðaleit FH?
„Það er mjög rólegt, ekkert að gerast þar eins og sakir standa. Við erum þannig séð rólegir yfir þessu. Reyndar vantar einhverja 4-5 í varnarlínuna í dag út af bönnum og meiðslum, en við skoðum okkar mál og sjáum hvort og þá hvað við gerum. Við erum að reyna vanda okkur."
Eftir að Mathias Rosenörn kom í FH, er ljóst að Sindri er á förum frá félaginu?
„Nei, það er ekkert ákveðið í því. Við erum eins og staðan með þrjá fullorðna markmenn. Það er ekkert launungarmál að við teljum alveg nóg að vera með tvo fullorðna markmenn plús svo einn á 2. flokks aldri. Það er ekkert komið á hreint hvað gerist. Við erum í góðu samtali bæði við Sindra og Daða varðandi stöðuna. Á meðan það er ekki komið neitt samkomulag við annað félag þá eru þeir bara hjá okkur og í baráttu um þessa einu markmannsstöðu," segir Davíð.
Athugasemdir