Þór er úr leik í Lengjubikarnum eftir svekkjandi tap gegn Breiðablik í undanúrslitunum í Boganum í dag. Fótbolti.net ræddi við Sigurð Heiðar Höskuldsson þjálfara Þórs eftir leikinn.
Lestu um leikinn: Þór 0 - 1 Breiðablik
„Mér hefur sjaldan liðið jafn vel eftir svona súrt tap þar sem mér fannst við ofan á nánast allan leikinn og mér leið eftir leikinn eins og við hefðum unnið þetta 3 til 4-0 núll," sagði Siggi.
„Þetta var bara eins og við erum búnir að vera spila. Það var gaman að fá alvöru lið hingað og geta séð hvar við stöndum og miðað við þessa frammistöðu erum við á mjög flottum stað. En við viljum ennþá meira og vera betri og kröftugri og þá erum við í mjög góðum málum í sumar."
Siggi Höskulds var ráðinn til Þórs í vetur en hann var aðstoðarþjálfari Vals síðasta sumar. Valur samdi við Gylfa Þór Sigurðsson í dag en Siggi var spurður út í þessi risa tíðindi.
„Þótt að ég sé Valsari og þetta snertir mig svolítið líka þá held ég að þetta sé mjög gott fyrir íslenskan fótbolta. Eina sem maður heyrir er að hann er á mjög góðum stað líkamlega. Þetta er virkilega spennandi og vonandi sjáum við hann sem mest inn á vellinum og hann nái takti strax og verður flottur," sagði Siggi.
„Umræðan var svolítið eins og Besta deildin væri að detta niður, áhuginn. Þetta hlítur að rífa það allsvakalega upp. Nú eru bara tvær til þrjár vikur í mótið, manni fannst þetta fara rosa hægt af stað, þetta mun sprengja deildina alveg klárlega."