banner
   þri 14. júní 2022 12:00
Elvar Geir Magnússon
Walker verður algjör lykilmaður fyrir England á HM
Mynd: EPA
Gareth Southgate segir að Kyle Walker, bakvörður Manchester City, sé algjör lykilmaður í plönum sínum með enska landsliðið. Hann hrósar leiðtogahæfileikum hans og áhrifum inn í hópinn.

Walker er 32 ára hefur leikið 67 landsleik. Hann getur bæði spilað sem bakvörður og sem miðvörður í þriggja miðvarða kerfi.

Það er mikil samkeppni um bakvarðarstöðu enska landsliðsins en ljóst er miðað við orð Southgate að Walker er gríðarlega mikilvægur fyrir hópinn.

„Maður tekur eftir því að leikmenn þróast og þroskast. Kyle Walker er dæmi. Hann er ekki fyrirliði í sínu félagi en er samt ígildi fyrirliða innan hópsins, innan og utan vallar," segir Southgate.

„Hann hefur þroskast mikið síðustu tvö eða þrjú ár. Hann hefur unnið deildina fjórum sinnum og öðlast sjálfstraust. Hann hefur verið með okkur í undanúrslitum HM og úrslitum EM. Hann er með mikla reynslu af stórleikjum."

Þrátt fyrir að árin færist yfir þá býr Walker enn yfir miklum hraða og er gríðarlegur íþróttamaður.

„Hann þarf ekki að tala mikið, ákveðnin er það sem lætur verkin tala. Hann er með hungur og drifkraft sem gerir það að verkum að hann vinnur fótboltaleiki. Hann er með sama hugarfar á æfingasvæðinu," segir Southgate.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner