Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 14. júlí 2021 21:20
Ívan Guðjón Baldursson
Rafa Benítez: Ekki hræddur við þetta starf
Mynd: Getty Images
Rafael Benítez, nýr stjóri Everton, svaraði spurningum á fréttamannafundi fyrr í kvöld og var meðal annars spurður út í ummæli sem hann lét falla þegar hann var við stjórnvölinn hjá nágrönnunum í Liverpool fyrr á öldinni.

Benítez sagði Everton þá vera lítið knattspyrnufélag eftir jafntefli í grannaslagnum 2007 og féll það ekki vel í kramið hjá stuðningsmönnum. Þeir virðast ekki allir hafa fyrirgefið Portúgalanum eftir að borði með hótunum beindum að Benítez fannst nálægt húsi hans skömmu eftir að hann var kynntur sem nýr stjóri félagsins.

Benítez segist þó ekki vera smeykur og er spenntur fyrir að snúa aftur í enska boltann.

„Það er langt síðan ég lét þessi ummæli falla. Þegar þú ert knattspyrnustjóri þá er það partur af starfslýsingunni að verja félagið þitt með kjafti og klóm. Það er það sem ég mun gera fyrir Everton, ég mun gera mitt allra besta í hverjum einasta leik," sagði Benítez við fréttamenn.

„Ég veit hvar liðið endaði á síðustu leiktíð og við munum leggja mikinn metnað í að gera betur."

Benítez segist upplifa jákvæðni meðal bæði stuðningsmanna Everton og Liverpool eftir að hafa flutt aftur til baka.

„Ég vil ekki tala um þennan borða því það gæti bara hafa verið einn eða tveir þar að baki. Ég vil frekar einbeita mér að því jákvæða.

„Everton fólkið í hverfinu mínu virðist ánægt með mig og hefur sýnt mér mikinn stuðning. Meira að segja stuðningsmenn Liverpool samþykkja að þetta er kjörið tækifæri fyrir mig til að snúa aftur í ensku úrvalsdeildina.

„Ég er ekki hræddur við þetta starf. Ég vil gera vel hérna, ég vil vinna fótboltaleiki."

Athugasemdir
banner
banner