„Við mættum ekki til leiks, mér fannst við lélegir í þessum leik og áttum ekkert verðskuldað út úr honum. Mér fannst KA liðið vilja þetta meira og við ógnuðum varla markinu þeirra," sagði Davíð Smári Lamude þjálfari Vestra eftir 0-2 tap heima gegn KA í Bestu-deild karla í kvöld.
Lestu um leikinn: Vestri 0 - 2 KA
„Við vorum í brasi varnarlega og gerðum líutið sóknarlega, tengdum við ekki sendingar og það var ofboðslega margt sem var ekki nógu gott í dag," hélt hann áfram.
KA og Vestri eru bæði í neðri hlutanum svo leikurinn var mikilvægur fyrir Vestra liðið gegn liði á sömu slóðum.
„Ég er hrikalega svekktur með þetta, mér fannst spennustigið hjá okkur ekki gott, menn voru að þræta inni á vellinum fókusinn okkar var ekki réttur," hann taldi rauða spjaldið sem Fatai Gbadamosi fékk í lokin vera réttan dóm en aðspurður hvort hann geti tekið eitthvað jákvætt úr leiknum sagði Davíð.
„Já, við getum ekki verið verra en þetta í næsta leik. Það er það jákvæða sem við tökum út úr þessu."
Davíð sagði Andra Rúnar Bjarnason hafa fengið matareitrun á dögunum og því væri farið vel með hann meðan hann er að koma til baka. Í spilaranum að ofan má sjá viðtalið í heild sinni en Davíð Smári gagnrýnir leikstjórn dómarateymisins á leiknum. Hann fékk sjálfur gult spjald.
Helgi Mikael Jónasson dæmdi leikinn í dag. Egill Guðvarður Guðlaugsson og Bergur Daði Ágústsson voru á línunum og Aðalbjörn Heiðar Þorsteinsson var fjórði dómari.
„Ég fæ gult spjald fyrir að kalla nafn dómarans því mér fannst alltof mikill tími farinn í innkast. Hvar erum við, come on! Hvað segi ég rangt ef ég segi nafn dómarans. Ég skil það ekki. Maður á ekki að væla yfir frammistöðu þeirra eftir leiki því það sem skiptir máli er frammistaða Vestra eftir leikinn því hún var ekki nógu góð. Það situr samt eftir, þessi svipbrigði og annað þegar maður reynir að vera í samskiptum við dómarann. Það er verið að rúlla augunum þegar maður reynir að segja eitthvað og ákveðið virðingarleysi," sagði Davíð Smári.
„Það er verið að krefja okkur sem vinnum í kringum fótbolta að sýna dómaranum virðingu en þá verðum við að fá virðingu til baka þegar maður reynir að tala við þá. Ég krefst þess að það sé umræða um þetta, ef það er verið að heimta virðingu frá okkur á bekknum þá verðum við að fá hana til baka. Ég labbaði í átt að dómaranum eftir leikinn eins rólegur og ég get verið og þegar ég kem í 5 metra radíus er mér hótað gulu spjaldi án þess að segja orð. 'Ef þú kemur nær þá gef ég þér gult spjald.' Ég átta mig ekki á svona, svo spyr ég dómarannn inni í klefa hvort við höfum ekki átt að fá innkast rétt áður en flautað var til hálfleiks sem fjórði dómarinn hafði sagt við mig að hafi átt að vera innnkast, þá skellti hann á mig hurðinni. Maður krefst þess að það sé hægt að tala við dómara, við erum að vinna í sama fagi, við erum ekki að keppa við dómarana."
Athugasemdir