Bandaríska blaðið Washington Post segir Evrópumeistarann Luis De La Fuente hafa áhuga á því að taka við bandaríska landsliðinu fyrir HM 2026.
De La Fuente stýrði Spánverjum til sigurs á Evrópumótinu í Þýskalandi í kvöld.
Hann hefur unnið fyrir fótboltasamband Spánar frá 2013, en hann var fyrst ráðinn sem þjálfari U19 ára liðsins sem hann gerði að Evrópumeisturum tveimur árum síðar og þá vann hann einnig mótið með U21 árs landsliðinu árið 2019.
De La Fuente náði í silfur á Ólympíuleikunum árið 2020 áður en hann var ráðinn þjálfari A-landsliðsins tveimur árum síðar.
Spánverjinn byrjaði á því að vinna Þjóðadeildina á sínu fyrsta ári og tók síðan Evrópumeistaratitilinn í kvöld.
Steven Goff hjá Washington Post fullyrðr nú að De La Fuente hafi áhuga á því að taka við bandaríska landsliðinu fyrir HM sem fer fram í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó eftir tvö ár.
Goff er virtur blaðamaður í Bandaríkjunum en frétt hans kom stuttu eftir að Spánn varð Evrópumeistari.
Bandaríkin eru í leit að þjálfara fyrir mótið eftir að Gregg Berhalter var sparkað eftir slakan árangur á Copa America-mótinu.
Athugasemdir