Lara Ivanusa og Lidija Kulis sömdu við Þór/KA síðasta vetur en þær eru farnar frá félaginu en þær sömdu við Abu Dhabi Country, sem mun leika í Meistaradeild Asíu, í kjölfarið.
Lara Ivanusa er slóvenska landsliðskona, sóknarmaður sem kom frá og er fædd árið 1997. Hún lék fjórtán deildarleiki og skoraði tvö mörk. Lidija Kulis er landsliðskona Bosníu-Hersegóvínu. Hún er varnarmaður sem fædd er árið 1992. Hún lék fimmtán deildarleiki með Þór/KA í sumar.
Jóhann Kristinn Gunnarsson sagði í viðtali við Vísi eftir leikinn að það hafi verið auðveld ákvörðun að leyfa þeim að fara.
„Mér fannst það ekki erfið ákvörðun þegar allt er tekið inn í myndina. Það væri ekkert mál fyrir okkur að segja bara nei við þær, að þær þyrftu að neita þessu tilboði og virða samningin við okkur en við erum ekki að berjast um að vinna gullið í þessari deild og við erum ekki að reyna forðast fall," sagði Jóhann Kristinn.
„Þannig að okkur fannst þetta bara tilvalið móment til leyfa þeim að uppfylla sína ævintýraþrá þarna úti og svo bara fleiri mínútur fyrir margar af þessum ungu stelpum eins og við sáum til dæmis bara á liðinu okkar hér í dag að fá bara fleiri mínútur á stóra sviðinu á móti sterkum liðum í efri hlutanum. Þetta fannst mér bara ganga vel í dag þannig ég sé ekki eftir neinni ákvörðun hvað það varðar.”