banner
   mán 14. október 2019 17:54
Magnús Már Einarsson
Leikmenn Andorra fóru upp um tvær deildir í sumar
Icelandair
Gerard Pique keypti FC Andorra í sumar.
Gerard Pique keypti FC Andorra í sumar.
Mynd: Getty Images
Af æfingu Andorra á Laugardalsvelli í gær.
Af æfingu Andorra á Laugardalsvelli í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jordi Alaez, framherji Andorra, og vinstri kantmaðurinn Joan Cervos eru báðir í byrjunarliðinu gegn Íslandi á Laugardalsvelli í kvöld.

Alaez og Cervos spila með FC Andorra sem hefur í áratugi spilað í spænsku neðri deildunum í stað þess að spila í úrvalsdeildinni í heimalandinu þar sem átta lið taka þátt.

Eftir mögur ár í spænsku E-deildinni þá urðu stakkaskipti hjá FC Andorra í sumar því þá komst liðið upp um tveir deildir!

Gerard Pique, varnarmaður Barcelona, keypti FC Andorra í fyrra og félagið komst upp úr spænsku E-deildinni í vor eftir að hafa farið taplaust í gegnum síðustu 22 leiki tímabilsins.

Nokkrum vikum eftir að hafa komist upp í D-deild þá komst FC Andorra upp í C-deild því félagið borgaði 452 þúsund evrur fyrir sæti þar. Andorra tók sæti Reus sem var dæmt niður í D-deild eftir að hafa ekki greitt leikmönnum sínum laun.

Reus lék í spænsku B-deildinni í fyrra en varð gjaldþrota og hætti þátttöku á miðju síðasta tímabili.

Leikmenn FC Andorra eru því að leika í mun sterkari deild í dag eftir að hafa spilað í E-deild á síðasta tímabili. Spánverjar úr E-deildinni hafa ratað í íslensku neðri deildirnar undanfarin ár og þá aðallega í 3. deild og jafnvel 4. deild. Nokkrir leikmenn úr spænsku C-deildinni hafa hins vegar komið í Pepsi og Inkasso-deildina.

Pique ætlar sér ennþá stærr hluti með FC Andorra en liðið fer vel af stað í sínum riðli og er á toppnum í sínum riðli í C-deildinni í augnablikinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner