Liverpool hafnaði tilboði í Nunez og hefur áhuga á Tzimas - Chelsea hefur sett verðmiða á Nkunku - Rashford vill fara til Barcelona
   mið 15. janúar 2025 16:19
Elvar Geir Magnússon
KA hafnaði tilboði Breiðabliks í Ívar Örn
Ívar Örn er 28 ára miðvörður.
Ívar Örn er 28 ára miðvörður.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Breiðablik gerði tilboð í Ívar Örn Árnason, fyrirliða og varnarmann KA, en Akureyrarfélagið hafnaði því samkvæmt heimildum Fótbolta.net.

Heyrst hefur að tilboðið hafi hljóðað upp á tíu milljónir króna en Ívar er samningsbundinn KA út 2026.

Ívar Örn er 28 ára miðvörður sem er uppalinn hjá KA og á sex tímabil að baki með meistaraflokki félagsins í efstu deild. Hann lék lykilhlutverk þegar KA varð bikarmeistari í fyrra.

Damir Muminovic, miðvörður Breiðabliks, er farinn til Asíu og Halldór Árnason, þjálfari Íslandsmeistarana, hefur sagst ætla að sækja varnarmann.

„Við þurfum að hafa augun opin fyrir styrkingu og hvernig við fyllum hans skarð. Okkar markmið er að spila marga leiki og fara langt í öllum keppnum. Þá þurfum við að vera með stóran og breiðan hóp. Við stefnum á að bæta við okkur hafsent, það er ekki spurning. Við munum skoða markaðinn vel og vanda valið," sagði Halldór í viðtali í desember.

KA hefur misst öfluga leikmenn frá síðasta tímabili og vill ekki að Ívar bætist á þann lista. Í morgun var greint frá því hér á Fótbolta.net að KA hafi áhuga á því að fá miðjumanninn Bjarna Mark Duffield aftur til félagsins en Fram er einnig að reyna að fá hann frá Val.
Athugasemdir
banner
banner
banner