Real Madrid setur sig í samband við Dalot - Gyökeres til United eða City - Salah til í eins árs samning - Rooney reynir að bjarga starfinu
   fös 15. febrúar 2019 15:44
Magnús Már Einarsson
Willum: Maður þarf að kýla á þetta
Willum skrifaði undir hjá BATE í dag.
Willum skrifaði undir hjá BATE í dag.
Mynd: BATE
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er mjög ánægður og spenntur," sagði Willum Þór Willumsson við Fótbolta.net í dag eftir að hann skrifaði undir þriggja og hálfs árs samnng við BATE Borisov í Hvíta-Rússlandi.

„Það tekur örugglega einhvern tíma fyrir mig að komast almennilega inn í þetta en þeir tala um að þeir ætli að láta mig spila eitthvað. Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu."

Willum fór ásamt föður sínum Willum Þór Þórssyni og Ólafi Garðarssyni umboðsmanni til Hvíta-Rússlands í vikunni þar sem þeir skoðuðu aðstæður og sáu BATE vinna Arsenal 1-0 í Evrópudeildinni í gær.

„Það var mjög gott andrúmsloft á leiknum og geggjuð stemning. Það var síðan frekar óvænt að þeir unnu. Þetta var snilld," sagði Willum.

Sumardeild er í Hvíta-Rússlandi en boltinn byrjar að rúlla þar um mánaðarmótin mars/apríl.

„Það er fínt að byrja strax í deildinni. Ég fer til London eftir helgi og hitti liðið þar fyrir seinni leikinn (gegn Arsenal). Þeir verða síðan eitthvað áfram í London og ég verð með þeim þar," sagði Willum en hann má ekki spila leikinn gegn Arsenal þar sem hann er ekki í Evrópuhópnum hjá BATE.

BATE hefur unnið deildina í Hvíta-Rússlandi þrettán ár í röð og oft farið í riðlakeppni í Meistara og Evrópudeildinni. „Þetta lið er mjög agað varnarlega og leikmenn vel þjálfaðir. Þeir eru reglulega í Evrópukeppni og það er mjög spennandi líka."

Willum verður fyrsti íslenski leikmaðurinn til að spila í úrvalsdeildinni Hvíta-Rússlandi og hann er spenntur fyrir verkefninu.

„Ég er búinn að vera í Minsk í tvo daga og þetta er mjög flott borg. Mér líst vel á þetta. Pabbi fílaði þetta líka. Aðstæðurnar eru fínar og það er allt til alls hérna. Þetta verður áskorun og það verður gaman að takast á við hana. Maður þarf að kýla á þetta," sagði Willum að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner