mán 15. mars 2021 09:30
Magnús Már Einarsson
Aubameyang brunaði heim eftir leik
Pierre-Emerick Aubameyang
Pierre-Emerick Aubameyang
Mynd: Getty Images
Pierre-Emerick Aubameyang, fyrirliði Arsenal, var ónotaður varamaður í 2-1 sigrinum á Tottenham í nágrannaslag í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Aubameyang átti að vera í byrjunarliði Arsenal en hann mætti of seint og því ákvað Mikel Arteta að taka hann úr liðinu.

Arteta er orðinn þreyttur á agabrotum Aubameyang en hann hefur áður gerst sekur um slíkt á tímabilinu.

Fyrr á tímabilinu mætti Aubameyang ekki í kórónuveiru próf fyrir leik í Evrópudeildinni og í febrúar braut hann sóttvarnarreglur þegar hann fékk sér tattú.

The Athletic segir að Arteta sé ósáttur með hegðun fyrirliðans og því hafi hann ákveðið að grípa til aðgerða í gær.

23 mínútum eftir að flautað var til leiksloka keyrði Aubameyang heim á Ferrari bifreið sinni.

Aðrir varamenn Arsenal voru á sama tíma ennþá úti á velli í æfingum hjá styrktarþjálfaranum Shad Forsythe. The Athletic segir ekki ljóst hvort Aubameyang hafi fengið leyfi til að sleppa þeirri æfingu eða hvort hann hafi farið heim án leyfis.

Líkamstjáning Aubameyang var neikvæð á bekknum á meðan á leik stóð og spurning er hvenær Arteta velur hann aftur í liðið í framhaldinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner