
Sigurður Heiðar Höskuldsson, aðstoðarþjálfari Vals, og Halldór Árnason, aðstoðarþjálfari Breiðabliks, spá í leikina.
Stóra spurningin fyrir kvöldið í Meistaradeildinni er hvort að Liverpool eigi einhvern möguleika á því að koma til baka úr 2-5 stöðu gegn Evrópumeisturum Real Madrid.
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, segir að það sé eitt prósent möguleiki en hvað segja spámennirnir okkar? Komumst að því!
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, segir að það sé eitt prósent möguleiki en hvað segja spámennirnir okkar? Komumst að því!
Halldór Árnason
Real Madrid 3 - 1 Liverpool (8 - 3)
Mjög erfiður leikur að spá í fyrir margar sakir. Þrátt fyrir 5-2 sigur Real í fyrri leiknum byrjuðu Liverpool miklu betur og mega vera ósáttir við að hafa ekki náð meiri forystu í fyrri hálfleik.
Leikmenn Real sýndu þá mikla ró og yfirvegun þrátt fyrir að vera í veseni, eins og í raun alla útsláttarkeppnina í fyrra. Einstaklingsgæðin refsuðu svo Liverpool fyrir öll mistök og svo fór sem fór. Stöðugleiki Liverpool er engin, hvorki í frammistöðu né væntingum stuðningsmanna og verkefni kvöldsins er sennilega, og því miður, of stórt.
Napoli 2 - 0 Frankfurt (4 - 0)
Gott gengi Napoli heldur áfram og eiga þeir Ítalíumeistaratitilinn vísan. Hafa verið frábærir bæði heima og í Evrópu og eru líklegir til að fara mjög langt í keppninni. Napoli fara í leikinn með gott tveggja marka forskot sem þýðir að Frankfurtarmenn þurfa að koma framarlega og taka áhættur á einverjum tímapunkti.
Heimamenn hleypa þessu aldrei upp í leik og klára að lokum aftur 2-0, mörk frá Osimhen og Kvaratskhelia.
Sigurður Heiðar Höskuldsson
Napoli 3 - 0 Frankfurt (5 - 0)
Napoli miklu sterkari í fyrri leiknum. Eru á frábærum stað með liðið og ég er nokkuð viss um að þeir vilji hamra járnið meðan það er heitt og keyra yfir Þjóðverjana.
Real Madrid 0 - 3 Liverpool (5 - 5)
Heldur betur upp og niður hjá Liverpool þessa dagana. Maður sér glitta í “gamla góða” Liverpool inn á milli. Þeir ná því upp í kvöld og leikurinn fer í framlengingu. Endar 3-0 í venjulegum leiktíma en Benzema lokar þessu í framlengunni því miður.
Fótbolti.net spáir - Sverrir Örn Einarsson
Real Madrid 1 - 3 Liverpool (6 - 5)
Samfélagið trúir og lifir í voninni um kraftaverk í Madrid. Trúin eflist eftir því sem líður á leikinn og finnst mér líklegt að lærisveinar Klopp verði komnir í 3-0 um miðjan seinni hálfleik. Madridingar eru þó sérfræðingar í þessari keppni og lauma rýting í hjarta Poolara vítt og breitt um hnöttinn með marki undir lok leiks og tryggja sig þar með áfram.
Napoli 3 - 0 Frankfurt (5 - 0)
Það er sigling á Napolimönnum sem eru ekkert mikið fyrir að tapa á heimavelli, töpuðu reyndar þar fyrir Lazio í deildinni á dögunum og það fyllti kvótann. Öruggur 3-0 heimasigur og ekkert meira um það að segja.
Staðan í heildarkeppninni:
Fótbolti.net - 13
Halldór Árnason - 12
Sigurður Heiðar Höskuldsson - 9
Athugasemdir