Það fóru tveir leikir fram í Bestu deild karla í kvöld, þar sem Fylkir og FH unnu heimaleiki sína gegn ÍA og HK.
Lestu um leikinn: Fylkir 3 - 0 ÍA
Botnlið Fylkis gerði sér lítið fyrir og rúllaði yfir spútnik lið ÍA með þremur mörkum gegn engu.
Ómar Björn Stefánsson skoraði fyrsta mark leiksins eftir laglegt samspil við Guðmund Tyrfingsson í flottri skyndisókn á 16. mínútu og tóku Árbæingar yfir leikinn er tók að líða á fyrri hálfleikinn.
Orri Sveinn Segatta tvöfaldaði forystu Fylkis eftir mikinn sóknarþunga heimamanna, með því að skalla hornspyrnu frá Arnóri Breka Ásþórssyni í netið. Orri skallaði boltann í opið net þar sem Árni Marinó Einarsson, markvörður ÍA, hrasaði eftir atgang í vítateignum og kom engum vörnum við, en Skagamenn vildu fá dæmda aukaspyrnu.
ÍA byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og fékk nokkur góð færi til að skora en varnarleikur Fylkis hélt og voru það heimamenn sem skoruðu næsta mark, sem reyndist lokamark leiksins.
Aron Snær Guðbjörnsson var þar á ferðinni til að innsigla sigurinn, eftir góðan undirbúning frá Nikulási Val Gunnarssyni.
Lokatölur 3-0 og gríðarlega mikilvægur sigur í hús fyrir botnlið Fylkis, sem er núna tveimur stigum frá öruggu sæti í deildinni.
ÍA dettur niður í fimmta sæti Bestu deildarinnar og missir um leið af kjörnu tækifæri til að blanda sér í toppbaráttuna.
Fylkir 3 - 0 ÍA
1-0 Ómar Björn Stefánsson ('16)
2-0 Orri Sveinn Segatta ('29)
3-0 Aron Snær Guðbjörnsson ('86)
Lestu um leikinn: FH 3 - 1 HK
FH lenti þá ekki í vandræðum gegn HK og tók forystuna á 12. mínútu, þegar Ísak Óli Ólafsson skoraði eftir hornspyrnu eftir góða byrjun Hafnfirðinga.
HK vann sig inn í leikinn er tók að líða á fyrri hálfleik og skoraði jöfnunarmark eftir skyndisókn í kjölfar hornspyrnu á hinum enda vallarins. Birnir Breki Burknason var réttur maður á réttum stað þegar boltinn datt fyrir hann í skyndisókninni og skoraði hann í hálfopið mark.
Staðan var því 1-1 í leikhlé, þar sem FH var sterkari aðilinn fyrri partinn en leikurinn jafnaðist talsvert út eftir jöfnunarmarkið.
Síðari hálfleikurinn var nokkuð jafn þar sem FH hélt boltanum og reyndi að sækja á meðan gestirnir úr Kópavogi vörðust.
Heimamenn juku pressuna jafnt og þétt er tók að líða á seinni hálfleikinn og skilaði það sér með marki á 79. mínútu, þegar Bjarni Guðjón Brynjólfsson skoraði frábært mark með laglegu þrumuskoti utan vítateigs í kjölfar hornspyrnu.
Það liðu aðeins sex mínútur þar til Sigurður Bjartur Hallsson innsiglaði sigur FH-inga eftir frábæran undirbúning frá Vuk Oskar Dimitrijevic.
Lokatölur urðu 3-1 og hoppar FH upp í fjórða sæti Bestu deildarinnar með þessum sigri, þar sem liðið á 24 stig úr 14 leikjum.
HK er áfram í fallbaráttu, tveimur stigum fyrir ofan fallsvæðið með 13 stig úr 14 umferðum.
FH 3 - 1 HK
1-0 Ísak Óli Ólafsson ('12)
1-1 Birnir Breki Burknason ('33)
2-1 Bjarni Guðjón Brynjólfsson ('79)
3-1 Sigurður Bjartur Hallsson ('85)
Athugasemdir