Það komu nokkrir Íslendingar við sögu í leikjum dagsins víða um Evrópu þar sem nóg var um að vera á þessum fótboltasunnudegi.
Í danska boltanum var Mikael Neville Anderson á sínum stað í byrjunarliði AGF sem vann auðveldan sigur gegn Sönderjyske. Kristall Máni Ingason var í byrjunarliði Sönderjyske en tókst ekki að koma í veg fyrir stórt tap.
Mikael skoraði eitt af fjórum mörkum gestanna frá Århus og urðu lokatölur 1-4. AGF er í þriðja sæti deildarinnar eftir þennan sigur, tveimur stigum á eftir toppliðum FC Kaupmannahafnar og Midtjylland sem eiga leik til góða.
Kristall og félagar í liði Sönderjyske eru í fallbaráttu með 16 stig eftir 18 umferðir. Daníel Leó Grétarsson er einnig á mála hjá Sönderjyske en var fjarverandi í dag vegna meiðsla.
Í efstu deild gríska boltans var Sverrir Ingi Ingason í byrjunarliði Panathinaikos sem vann 2-1 gegn Volos. Sverrir Ingi skoraði fyrsta mark leiksins í sigrinum mikilvæga, en Hjörtur Hermannsson lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Volos.
Panathinaikos er í þriðja sæti grísku deildarinnar eftir sigurinn, fimm stigum á eftir erkifjendunum í liði Olympiakos.
Gísli Eyjólfsson var í byrjunarliði Halmstad sem vann auðveldan 4-0 sigur á Gefle og var Birnir Snær Ingason ónotaður varamaður í sigrinum.
Hlynur Freyr Karlsson lék allan leikinn í markalausu jafntefli hjá Brommapojkarna gegn Brage og þá voru Eggert Aron Guðmundsson, Kolbeinn Þórðarson og Daníel Tristan Guðjohnsen ekki í leikmannahópum Elfsborg, Göteborg og Malmö sem sigruðu gegn Örgryte, Oddevold og Utsikten.
Í efstu deild í Belgíu var Andri Lucas Guðjohnsen á sínum stað í byrjunarliði Gent sem tók á móti botnliði Beerschot. Staðan var 2-2 þegar Andra var skipt af velli á 68. mínútu og tókst liðsfélögum hans að knýja fram sigur að lokum.
Lokatölur urðu 3-2 og er Gent í góðri stöðu í sjötta sæti deildarinnar eftir þennan sigur, með 40 stig eftir 26 umferðir.
Að lokum gerði Haugesund 1-1 jafntefli í æfingaleik gegn Moss í Noregi. Anton Logi Lúðvíksson er á mála hjá Haugesund.
Sonderjyske 1 - 4 AGF
0-1 P. Mortensen ('24)
0-2 Mikael Anderson ('26)
1-2 I. Djantou ('34)
1-3 P. Mortensen ('45+2)
1-4 P. Mortensen ('51)
Rautt spjald: M. Madsen, AGF ('66)
Panathinaikos 2 - 1 Volos
1-0 Sverrir Ingi Ingason ('20)
2-0 A. Gnezda Cerin ('56)
2-1 J. Anor ('59)
Halmstad 4 - 0 Gefle
Goteborg 2 - 0 Oddevold
Elfsborg 3 - 1 Orgryte
Malmo 5 - 0 Utsikten
Haugesund 1 - 1 Moss
Athugasemdir