Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   þri 16. maí 2023 11:13
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sjáðu atvikið umtalaða - „Verðum að fá að heyra hvað gerðist"
Lengjudeildin
Þorlákur Árnason, þjálfari Þórs, ræðir við Elías Inga.
Þorlákur Árnason, þjálfari Þórs, ræðir við Elías Inga.
Mynd: Raggi Óla
Eftir leikinn.
Eftir leikinn.
Mynd: Raggi Óla
Sigurmark Aftureldingar kom í lokin, eftir að atvikið umtalaða átti sér stað.
Sigurmark Aftureldingar kom í lokin, eftir að atvikið umtalaða átti sér stað.
Mynd: Raggi Óla
Elías Ingi gefur gult spjald.
Elías Ingi gefur gult spjald.
Mynd: Raggi Óla
Afturelding vann leikinn 1-0.
Afturelding vann leikinn 1-0.
Mynd: Raggi Óla
Það átti sér stað ansi umdeilt atvik í leik Aftureldingar og Þórs í Lengjudeildinni í síðustu viku. Elías Ingi Árnason dæmdi vítaspyrnu fyrir Þór á 78. mínútu.

Um fimm mínútum síðar átti Aftureldingar hins vegar markspyrnu eftir að Elías Ingi hafði skipt um skoðun. Leikmenn Aftureldingar hópuðust að dómaranum og í kjölfarið breytti Elías um skoðun.

Þorlákur Árnason, þjálfari Þórs, var vægast sagt ósáttur við það sem gerðist. „Ég veit ekki hvað ég má segja en það er þannig að við förum á dómarafund með formanni dómaranefndar og þar er sagt að það sé strangt tekið á mótmælum leikmanna. Leikmennirnir snúa við þessum dómi með því að mótmæla og mótmæla. Mér fannst þetta vera 50/50 Hann fer klárlega í leikmanninn hann dettur ekki af sjálfum sér. Ég held ég hafi aldrei séð svona atvik," sagði Láki að leik loknum.

Rætt var um atvikið í útvarpsþættinum Fótbolta.net á laugardag. Deila má um það hvort þetta hafi verið vítaspyrna eða ekki, en atburðarásin var vægast sagt furðuleg.

Alveg hörmuleg útfærsla
Rætt var um það í þættinum að það hafi líklega verið réttur dómur að dæma ekki vítaspyrnu þarna. „Það sem er alvarlegt í þessu er að ég veit að Þórsarar fara á fund með dómara - Þóroddi Hjaltalín - þar sem kemur skýrt fram að það alvarlegasta í fótbolta eru hópmótmæli," sagði Sæbjörn.

„Þetta er lína í heimsfótboltanum. Það er búið að reyna að stoppa þetta frá því að Jose Mourinho innleiddi þetta með stæl í ensku úrvalsdeildinni árið 2004. Þetta er búið að vera plága síðan þá. Ég get ímyndað mér að önnur lið hafi fengið sömu skilaboð."

„Eina sem ég vil vita er hvað fór þarna fram og af hverju Elías breytir um skoðun," sagði Tómas. „Í hvert einasta skipti sem er dæmd vítaspyrna koma að minnsta kosti þrír til 14 menn og reyna að útskýra fyrir dómaranum að hann hafi gert mistök. Hingað til - frá því ég byrjaði að fylgjast með fótbolta árið 1991 - hef ég ekki séð þetta gerast. Ég sá þetta í fyrsta sinn gerast með VAR en ég hef aldrei séð leikmenn útskýra fyrir dómara að hann hafi gert mistök og hann bara: 'Þegar þið segið það, þetta eru góðir punktar sem þið komið með'."

Í myndbandinu af atvikinu sést Elías Ingi ekki ráðfæra sig við aðstoðardómarann, það eina sem sést er að leikmenn Aftureldingar mótmæla heiftarlega í dágóðan tíma áður en Elías fer að Þorláki, þjálfara Þórs, og tjáir honum að hann hafi breytt um skoðun. Möguleiki er að Elías hafi talað við aðstoðarmenn sína í gegnum samskiptakerfi en það er ekki vitað. Ef hann gerði það ekki og ákvað að breyta eftir mótmæli leikmanna Aftureldingar, þá er það fordæmisgefandi.

„Getur verið að hann hafi hætt að hlusta á Aftureldingarmennina í smástund og hlustað í eyranu? Auðvitað eiga þeir að hjálpast að," sagði Tómas.

„Ef það er þannig þá er þetta samt alveg hörmuleg útfærsla," sagði Elvar og tók Tómas undir það. „Hann hefði getað selt þetta miklu betur ef hann hefði farið út úr þessari Mosóþvögu til aðstoðardómarans - ef að þetta sem ég er að segja var niðurstaðan - og svo til Láka. Þannig að þetta sé eins og dómararnir hafi tekið ákvörðunina," sagði Tómas Þór.

Það þarf eitthvað að koma frá dómarayfirvöldum
„Ég er að vona að pælingin komi frá dómurunum en ekki leikmönnum Aftureldingar. En við munum aldrei fá neinar útskýringar," sagði Tómas Þór.

„Láki segir sjálfur að leikmennirnir snúi þessu við. Elli hleypur upp að Láka og tilkynnir honum ákvörðunina sína. Þá hefði hann væntanlega sagt að aðstoðardómarinn væri að leiðrétta sig," sagði Elvar Geir. „Það er allt útlit fyrir að leikmennirnir hafi snúið þessu við."

Tómas segir að það þurfi að vera með upplýsingaflæði hjá dómurum, sérstaklega eftir svona ákvarðanir.

„Sem er hræðilegt, gjörsamlega hræðilegt. Við þurfum að opna dómgæslu, samskipti dómara... þarna verður einhver að stíga fram og segja að Elías Ingi gerði herfileg mistök eða að hann gerði réttan hluta með réttum aðferðum og leysti það illa. Þetta er stórt atvik," sagði Tómas en Elías er dómari sem er að dæma í Bestu deildinni. „Við verðum að fá að heyra hvað gerðist."

„Það þarf eitthvað að koma frá dómarayfirvöldum, ég er sammála því," sagði Elvar Geir en rætt var einnig um það hvort Elías gæti fengið leyfi til að koma fram og útskýra sína hlið á málinu. „Vonandi kemur eitthvað. Menn gera mistök en þetta var með því skrítnara sem ég hef séð," sagði Tómas.

Fótbolti.net hefur sent fyrirspurn til dómaranefndar vegna málsins en ekki fengið svar enn sem komið er.

Hægt er að sjá myndband af atvikinu hér fyrir neðan. Afturelding vann leikinn 1-0 með dramatísku sigurmarki í lokin, eftir atvikið umdeilda.


Láki: Leikmenn snúa dómnum við með mótmælum
Útvarpsþátturinn - Það tjáir að deila við dómarann
Athugasemdir
banner
banner