Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 16. júní 2022 19:58
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Besta deildin: KA náði að bjarga andlitinu í fyrsta leik á nýjum heimavelli
Daníel gerði jöfnunarmarkið.
Daníel gerði jöfnunarmarkið.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Fram hefur verið að spila betur en fólk bjóst við.
Fram hefur verið að spila betur en fólk bjóst við.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KA 2 - 2 Fram
0-1 Tiago Manuel Da Silva Fernandes ('24 )
0-2 Frederico Bello Saraiva ('36 )
1-2 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('81 , víti)
2-2 Daníel Hafsteinsson ('87 )
Lestu um leikinn

KA sýndi mikinn karakter með því að koma til baka er þeir mættu Fram í fyrsta leik dagsins í Bestu deild karla.

KA var að leika sinn fyrsta deildarleik á nýjum heimavelli sínum á KA-svæðinu en Framarar ætluðu sér að eyðileggja þennan mikla hátíðisdag fyrir þeim.

Fram, sem hefur verið að gera mun betur en fólk spáði fyrir um áður en mótið hófst, byrjaði á því að taka forystuna um miðbik fyrri hálfleiks þegar Tiago Fernandes skoraði. „Jáhá! Negla! Tiago kemur Fram yfir með glæsilegu skoti fyrir utan teig! Jannik Pohl með stutta sendingu á hann, rekur boltann nokkur skref og neglir á markið!” skrifaði Jóhann Þór Hólmgrímsson í beinni textalýsingu.

KA hafði fengið tvö dauðafæri til að skora stuttu áður en markið kom. Tólf mínútum eftir að Tiago skoraði, þá tók Fred Saraiva sig til og bætti við öðru marki Framara eftir slæm mistök Daníels Hafsteinssonar.

KA-menn voru þarna slegnir niður á jörðina, þeir voru lentir 2-0 undir gegn Fram - liðinu sem var spáð neðsta sæti í öllum spám fyrir mót.

KA nýtti ekki sín færi vel í þessum leik og var ekki mikið að detta fyrir þá - ekki fyrr en á 80. mínútu er þeir fengu vítaspyrnu. Hallgrímur Mar Steingrímsson fór á vítapunktinn og skoraði. Hann minnkaði muninn og stuttu eftir það bætti Daníel Hafsteins upp fyrir mistök sín og jafnaði metin.

Þetta er fljótt að gerast í fótboltanum en fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur 2-2.

Lið Fram hefði líklega verið sátt með eitt stig fyrir leik, en miðað við hvernig leikurinn spilaðist þá eru þeir líklega súrir og svekktir. KA er í fjórða sæti með 17 stig og Fram er í áttunda sæti með níu stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner