Zirkzee, Yoro og Branthwaite orðaðir við Man Utd - Arsenal mun framkvæma læknisfræðilegt mat á Neto
   sun 16. júní 2024 19:33
Ívan Guðjón Baldursson
Koeman: Við vorum heppnir að skora sigurmarkið
Mynd: EPA
Holland byrjaði Evrópumótið á 2-1 sigri gegn Póllandi í dag og svaraði Ronald Koeman landsliðsþjálfari spurningum að leikslokum.

Adam Buksa kom Pólverjum yfir á 16. mínútu en Hollendingar voru fljótir að svara og var staðan 1-1 í leikhlé eftir jöfnunarmark Cody Gakpo.

Hollendingar klúðruðu mikið af góðum færum í leiknum en tókst þó að gera sigurmark á lokakaflanum, þegar Wout Weghorst kom inn af bekknum og setti boltann í netið á 83. mínútu.

„Við áttum að vera 4-1 yfir eftir klukkutíma. Við spiluðum mjög vel en áttum í miklum erfiðleikum með að skora. Þetta var mjög hættuleg staða fyrir okkur og við vorum heppnir að pota inn sigurmarki undir lokin," sagði Koeman að leikslokum.

„Þessi sigur er góður fyrir sjálfstraustið okkar en við þurfum að bæta færanýtinguna. Strákarnir kláruðu færin sín vel í æfingaleikjunum fyrir mót þannig að hæfileikarnir eru til staðar. Þeir skoruðu fjögur mörk í hvorum æfingaleiknum og þeir áttu að skora fjögur mörk aftur í dag.

„Það er ýmislegt sem við þurfum að bæta fyrir næstu leiki og ég er viss um að þetta verði frábært mót."


Holland spilar næst stórleik við Frakkland á föstudaginn áður en liðið mætir Austurríki í lokaleik riðlakeppninnar 25. júní.

Hollendingar töpuðu báðum leikjunum sínum gegn Frakklandi í undankeppninni fyrir EM.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner