Zirkzee, Yoro og Branthwaite orðaðir við Man Utd - Arsenal mun framkvæma læknisfræðilegt mat á Neto
banner
   mán 17. júní 2024 07:40
Ívan Guðjón Baldursson
Genoa að ganga frá kaupum á Vitinha - Spilar sömu stöðu og Albert
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Ítalska félagið Genoa er að ganga frá kaupum á portúgalska sóknarleikmanninum Vitinha.

Vitinha lék með Genoa á láni á seinni hluta síðustu leiktíðar en fékk lítinn spiltíma vegna meiðsla. Honum tókst að skora 2 mörk í 9 leikjum, eða á tæpum 300 mínútum, í treyju Genoa og hreif hann þjálfarateymi liðsins.

Genoa er í leit að nýjum sóknarleikmönnum þar sem félagið virðist vera að missa stjörnuleikmann sinn Albert Guðmundsson í sumar, enda er Albert eftirsóttur af stórliðum víða um Evrópu.

Stjórnendur Genoa vonast til að Vitinha sé lausnin sem liðið þarf, en hann er 24 ára gamall og kemur úr röðum franska félagsins Marseille.

Genoa borgar um 15 milljónir evra til að festa kaup á leikmanninum en Marseille heldur endurkaupsrétti.

Vitinha skoraði 4 mörk í 10 leikjum með U21 landsliði Portúgal en á eftir að taka stökkið upp í A-landsliðið.

Hann er alinn upp hjá Braga í heimalandinu og var keyptur til Marseille fyrir 32 milljónir evra í janúar 2023.

Honum tókst ekki að hrífa þjálfarateymið hjá Marseille nægilega mikið og ákvað félagið að selja hann til að skapa pláss fyrir aðra leikmenn.
Athugasemdir
banner
banner
banner