Óttar Magnús Karlsson hefur verið að finna taktinn með Vis Pesaro í C-deild ítalska boltans þar sem hann leikur á láni frá B-deildarliðinu Venezia.
Óttar Magnús er kominn með fast sæti í byrjunarliðinu og var hann á sínum stað gegn Pescara í kvöld.
Óttar átti frábæran leik og skoraði tvennu áður en honum var skipt af velli á 69. mínútu. Lokatölur urðu 4-0 og er Vis Pesaro aðeins þremur stigum frá umspilssæti eftir að hafa nælt sér í sjö stig úr síðustu þremur leikjum.
Óttar er búinn að skora 10 mörk í 16 leikjum á deildartímabilinu, þar af hafa sex komið í síðustu fimm leikjum.
Mikael Egill Ellertsson og Bjarki Steinn Bjarkason voru báðir á varamannabekk Venezia í B-deildinni og var þeim skipt inn undir lokin í 2-2 jafntefli gegn Modena.
Feneyingar eru í harðri baráttu um 2. sæti B-deildarinnar, sem veitir beinan þátttökurétt í efstu deild á næstu leiktíð.
Guðlaugur Victor Pálsson var þá í byrjunarliði Eupen sem tapaði heimaleik gegn Gent í efstu deild belgíska boltans fyrr í kvöld. Alfreð Finnbogason kom inn af bekknum á 65. mínútu en tókst ekki að hafa áhrif á leikinn.
Þetta var fjórða tap Eupen í röð og er liðið í næstneðsta sæti deildarinnar, með 21 stig eftir 26 umferðir.
Leikurinn í kvöld var bragðdaufur þar sem lítið var um færi, en færanýting gestanna var betri.
Sverrir Ingi Ingason og félagar í Midtjylland töpuðu útileik gegn tíu leikmönnum Bröndby í efstu deild danska boltans. Henrik Heggheim fékk rautt spjald fyrir brot innan vítateigs á 17. mínútu en Cho Gue-sung klúðraði af vítapunktinum og stóðu heimamenn að lokum uppi sem sigurvegarar eftir fjörugan leik.
Patrick Pentz, markvörður Bröndby, var besti leikmaður vallarins. Sverrir Ingi átti góðan leik í hjarta varnarinnar hjá Midtjylland.
Óli Valur Ómarsson var þá í byrjunarliði Sirius sem lagði Utsikten að velli í sænska bikarnum, á meðan Arnór Ingvi Traustason fékk rautt spjald í 1-1 jafntefli Norrköping gegn Brage.
Ísak Andri Sigurgeirsson kom inn af bekknum á 65. mínútu í liði Norrköping en Arnór Ingvi var rekinn af velli á 93. mínútu, þegar staðan var þegar orðin 1-1.
Vis Pesaro 4 - 0 Pescara
1-0 M. Pucciarelli ('28)
2-0 Óttar Magnús Karlsson ('39)
3-0 Óttar Magnús Karlsson ('48)
4-0 L. Da Pozzo ('76)
Venezia 2 - 2 Modena
Eupen 0 - 2 Gent
Bröndby 1 - 0 Midtjylland
Sirius 2 - 0 Utsikten
Norrköping 1 - 1 Brage
Athugasemdir