Portúgalski miðjumaðurinn Joao Palhinha var keyptur til FC Bayern síðasta sumar eftir langa bið. Bayern reyndi einnig að kaupa hann sumarið 2023 en sú tilraun misheppnaðist.
Palhinha beið í heilt ár hjá Fulham eftir að ganga til liðs við þýska stórveldið og fékk loksins ósk sína uppfyllta síðasta sumar.
Hann hefur þó lítið spilað hjá Bayern. Palhinha hefur verið að glíma við meiðsli og ekki staðið sig nægilega vel til að hirða byrjunarliðssæti af Joshua Kimmich eða Leon Goretzka sem leika í hans stöðu á miðjunni.
„Það er ekki partur af okkar áformum að selja Joao Palhinha í sumar. Hann hefur ekki ennþá fundið taktinn hérna og það er að hluta til meiðslum að kenna. Þetta er fyrsta árið hans hjá svona stóru félagi og við munum gefa honum tíma. Hann er sannur atvinnumaður, sterkur karakter og frábær náungi," segir Christoph Freund, yfirmaður fótboltamála hjá Bayern.
Athugasemdir