Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   sun 18. ágúst 2019 22:38
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
ÍA unnið einn leik frá 26. maí - Úr meistaraefnum í fallbaráttu
Þessi mynd var tekin í sigri ÍA á Breiðabliki í 5. umferð.
Þessi mynd var tekin í sigri ÍA á Breiðabliki í 5. umferð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA.
Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin er gríðarlega jöfn og það er lítið sem skilur á milli fallbaráttu og Evrópubaráttu.

Eftir tap gegn Stjörnunni í kvöld er hægt að segja það að ÍA sé að sogast í fallbaráttu.

Smelltu hér til að lesa um leikinn.

Í upphafi Pepsi Max-deildarinnar var ÍA aðalumræðuefnið. Eftir sex umferðir var ÍA, sem komst upp úr Inkasso-deildinni í fyrra, á toppi deildarinnar með 16 stig. Liðið hafði unnið KA, Val, FH, Stjörnuna og Breiðablik - lið sem voru talin með sterkari liðum deildarinnar fyrir mót.

Þessi magnaða byrjun Skagamanna vakti mikið umtal og var talað um ævintýri í líkingu við það þegar Leicester varð Englandsmeistari 2016.

Sjá einnig:
Twitter - Leicester ævintýri að hefjast á Skipaskaga

Þegar ÍA vann Breiðablik í 5. umferð sagði Lucas Arnold, sem fylgist betur en margir aðrir með íslenska boltanum, að hann væri sannfærður um að ÍA gæti unnið deildina. Lucas vinnur sem ráðgjafi hjá Football Radar í London og þar fjallar hann um Pepsi Max-deildina.

Eftir sjöttu umferðina þar sem ÍA vann Stjörnuna á heimavelli varð umræðan enn hærri um að Skagamenn gætu orðið Íslandsmeistarar.

Hins vegar, eftir þessa sjöttu umferð, þá hefur leiðin legið niður á við hjá ÍA. Gengið hefur dalað mjög og hafa Skagamenn aðeins unnið einn leik frá því liðið vann Stjörnuna í sjöttu umferð.

Eftir fjórða tapleikinn í röð gegn Stjörnunni í kvöld, sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA: „Við höfum verið að glíma við ákveðnar hræringar í leikmannahópnum. Það hafa verið meiðsli, það hafa verið leikbönn og það er oft á tíðum erfitt að stilla sig af þegar það er að gerast. Samt sem áður er ég ekki að fara að nota það sem afsökun því við hefðum átt að geta varist mikið betur sem lið í dag."

„Þetta er ótrú­lega jöfn deild, það er stutt upp og stutt niður. Það eina sem við erum að pæla í er næsti leik­ur og þar eru þrjú stig í boði."

Viðtalið við Jóa Kalla er hér að neðan. Næsti leikur ÍA er gegn ÍBV á heimavelli næstkomandi laugardag. Það ætti að vera kjörinn leikur fyrir ÍA til að komast aftur á sigurbraut.

ÍA er núna í sjöunda sæti með 22 stig, fjórum stigum frá fallsæti, en þess ber að geta að deildin er ótrúlega jöfn eins og Jói Kalli segir og líka aðeins fimm stig upp í fjórða sætið. Ef ÍA fer að vinna fótboltaleiki aftur þá er jafnvel möguleiki á annars konar baráttu.
Jói Kalli spurður út í fallbaráttu: Hugsum bara um næsta leik
Athugasemdir
banner
banner
banner